Viðskipti innlent

Lang­þreytt á fasteignakeðjum sem slitna og ætlar aldrei aftur að flytja

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Díana Dögg hefur selt eignina sína nokkrum sinnum en salan hefur ekki gengið í gegn vegna fasteignakeðja sem slitna. Hún veit til þess að margt fólk sem hún vinnur með hafi lent í því sama.
Díana Dögg hefur selt eignina sína nokkrum sinnum en salan hefur ekki gengið í gegn vegna fasteignakeðja sem slitna. Hún veit til þess að margt fólk sem hún vinnur með hafi lent í því sama. Vísir/Sigurjón

Sex manna fjölskylda sem fékk samþykkt kauptilboð í húsnæði í apríl er orðin langþreytt á sölukeðjum sem ítrekað slitna. Ástandið myndi batna talsvert ef fólk sem hyggur á kauptilboð hefði greiðslumatið til reiðu og lánsloforð frá bankanum.

Tilraun Díönu Daggar Víglundsdóttur, sölustjóra hjá REON, og fjölskyldu hennar til að stækka við sig hefur ekki gengið snurðulaust fyrir sig. Hún byrjaði að leita í nóvember á síðasta ári og gerði kauptilboð í fallega eign sem var samþykkt - en allt kom fyrir ekki.

„Fasteignasalinn fór sínar eigin leiðir og seldi húsnæðið öðrum sem við vorum þó með samþykkt kauptilboð í. Þar með fór það. Við kærðum það ferli en við erum engu betur settari.

Hafa selt eignina nokkrum sinnum

Hjónin hófu leitina að nýju. Þau fundu aðra eign í apríl síðastliðnum en eru nú föst í fjögurra eigna keðju.

„Við erum ennþá með virkt kauptilboð í þá eign og erum búin að selja okkar eign nokkrum sinnum en það flaskar á greiðslumati þeirra sem gera tilboð í okkar eign sem þýðir að við erum svolítið alltaf að byrja ferlið upp á nýtt. Næsta opið hús, næsta tilboð kemur, næsti aðili fellur á greiðslumati og við þurfum að byrja upp á nýtt.“

Díana segir óskandi að fólk sem hyggur á tilboð myndi mæta með samþykkt greiðslumat og lánsloforð frá banka í stað þess að gera tilboð án vitneskju um greiðslugetu.

„Það kostar 20 þúsund krónur hjá bankanum að fá greiðslumat og lánsloforð og ef þú ert að fjárfesta í eign upp á margar margar, milljónir þá er þetta dropi í hafið. Þetta gildir í sex mánuði og þú ættir að geta gert fullt af tilboðum með þetta í vasanum.“

„Mig langar aldrei að flytja aftur!“

Þetta langa og stranga ferli hafi tekið á tilfinningalífið.

„Börnin okkar fjögur eru öll að spyrja og vinir barnanna eru að spyrja og allir nágrannar að spyrja og maður hefur ekkert svar. Ég veit ekki. Svo er maður búinn að innrétta húsið nokkrum sinnum í hausnum á sér.“

Þið eruð búin að brenna ykkur svolítið á markaðnum?

„Við erum svo sannarlega búin að brenna okkur en maður er orðinn reynslunni ríkari og mig langar aldrei að flytja aftur!“ segir Díana og skellihlær. Þótt þetta ferli hafi tekið á hana þá er aldrei langt í húmorinn.


Tengdar fréttir

Djúpstæð vonbrigði þegar margra eigna keðjur slitna

Langar fasteignakeðjur tefja fyrir fyrir viðskiptum á markaði og geta slitnað auðveldlega, enda eru dæmi um að sjö eða fleiri eignir séu á bak við eina sölu. Formaður Félags fasteignasala kallar eftir þjóðarátaki hjá kaupendum til að breyta markaðnum; selja fyrst, kaupa svo!






Fleiri fréttir

Sjá meira


×