Sport

Sneri við á HM og studdi keppi­naut í mark

Sindri Sverrisson skrifar
Tim Van De Velde studdi við Carlos San Martin á lokaspretti 3.000 metra hindrunarhlaupsins í dag.
Tim Van De Velde studdi við Carlos San Martin á lokaspretti 3.000 metra hindrunarhlaupsins í dag. Getty/Hannah Peters

Heimsmeistaramótið í frjálsum íþróttum er hafið í Tókýó og eitt af því sem vakti mesta athygli á fyrsta keppnisdeginum var falleg stund í 3.000 metra hindrunarhlaupi. Belgískur keppandi sætti sig þar við að koma síðastur í mark, til að hjálpa meiddum keppinaut.

Í þriðja og síðasta undanriðli 3.000 metra hindrunarhlaupsins gekk ýmislegt á. Snemma féllu Kólumbíumaðurinn Carlos San Martín og Lamecha Girma frá Eþíópíu eftir að sá fyrrnefndi lenti í vandræðum með að fara yfir hindrun, og Spánverjinn Daniel Arce datt svo einnig og meiddist, og varð að hætta keppni.

Undir lok hlaupsins höfðu svo hinn belgíski Tim van de Velde og fyrrnefndur San Martín dregist aftur úr og var Kólumbíumaðurinn greinilega þjáður.

Það leit jafnvel út fyrir að hann myndi ekki klára hlaupið en þá sneri Belginn við, í burtu frá endalínunni, og studdi hann síðasta spölinn. Þetta gladdi áhorfendur sem fögnuðu þeim vel, þó að þeir væru langt frá því að komast áfram í úrslitin.

Van de Velde endaði á að hlaupa á 9:02.21 mínútum, sekúndu á eftir San Martín, þrátt fyrir að hafa best hlaupið á 8:14.40 mínútum á sínum ferli.

Fimm fremstu í hlaupinu komust áfram í úrslitin og var Þjóðverjinn Niklas Buchholz síðastur inn á 8:29.53 mínútum. Girma, sem jafnaði sig eftir fallið í upphafi hlaups, varð í 2. sæti á eftir Soufiane El Bakkali frá Marokkó. Daniel Michalski og Ruben Querinjean komust einnig áfram.

Úrslitahlaupið verður á mánudaginn, klukkan 12:55 að íslenskum tíma.

Þrír Íslendingar keppa á HM og ríður Guðrún Karítas Hallgrímsdóttir á vaðið í nótt þegar hún keppir í undankeppni sleggjukasts.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×