Viðskipti innlent

Sam­mála um aukna verð­bólgu í septem­ber

Árni Sæberg skrifar
Helsta ástæðan fyrir aukinni verðbólgu er sú að áhrif gjaldfrjálsra skólamáltíða detta út í septembermælingunni.
Helsta ástæðan fyrir aukinni verðbólgu er sú að áhrif gjaldfrjálsra skólamáltíða detta út í septembermælingunni. Vísir/Vilhelm

Bæði Landsbankinn og Íslandsbanki spá því að verðbólga fari á ný yfir efri vikmörk verðbólgumarkmiðs Seðlabankans í næstu mælingu. Landsbankinn spáir 4,1 prósents verðbólgu en Íslandsbanki 4,2 prósenta.

Verðbólga hjaðnaði nokkuð óvænt milli mánaða í síðustu mælingu og stendur nú í 3,8 prósentum, undir fjögurra prósenta efri vikmörkum verðbólgumarkmiðsins. 

Bæði Íslandsbanki og Landsbankinn höfðu þá spáð því að verðbólgan myndi standa í stað í fjórum prósentum.

Gjaldfrjálsu máltíðirnar detta út

Landsbankinn birti nýja verðbólguspá í gær og spáði því að verðbólga myndi aukast á ný í september og mælast 4,1 prósent. Aukin verðbólga muni aðallega skýrast af því að í september í fyrra hafi máltíðir í grunnskólum verið gerðar ókeypis og lækkunaráhrifin af því detti nú út úr ársverðbólgunni. 

Verðhækkun á mjólkurafurðum leiði til meiri hækkunar á matvöruverði en síðustu mánuði. Ró yfir húsnæðismarkaðnum haldi aftur af hækkunum á reiknaðri húsaleigu en útsölulok hafi áhrif til hækkunar í mánuðinum, gangi spáin eftir.

Íslandsbanki ögn svartsýnni

Íslandsbanki birti sína spá í morgun og spáði því að vísitala neysluverðs hækki um 0,15 prósent í september frá fyrri mánuði. Gangi spáin eftir muni verðbólga aukast úr 3,8 prósentum í 4,2 prósent og fara aftur á ný yfir fjögurra prósenta efri vikmörk verðbólgumarkmiðs Seðlabankans. 

„Helsta ástæða fyrir aukningu ársverðbólgunnar er sú að í september í fyrra lækkaði vísitalan um 0,3% á milli mánaða vegna þess að skólamáltíðir í grunnskólum urðu gjaldfrjálsar. Þessi áhrif fjara út með nýrri septembermælingu. Við teljum að ársverðbólga verði með svipuðu móti næstu mánuði og mun mælast rétt yfir efri vikmörkum Seðlabankans. Hagstofan birtir vísitölu neysluverðs þann 25. september næstkomandi.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×