Íslenski boltinn

„Setti oft fót­boltann fram yfir mína and­legu heilsu“

Valur Páll Eiríksson skrifar
Lára Kristín Pedersen hefur lokið leik í fótboltanum en hefur þó í nægu að snúast. Hún skilur sátt við þrátt fyrir að ákvörðunin um að ferlinum sé lokið hafi að vissu leyti verið tekin fyrir hana.
Lára Kristín Pedersen hefur lokið leik í fótboltanum en hefur þó í nægu að snúast. Hún skilur sátt við þrátt fyrir að ákvörðunin um að ferlinum sé lokið hafi að vissu leyti verið tekin fyrir hana. Vísir/Ívar

Lára Kristín Pedersen lagði á dögunum fótboltaskóna upp í hillu vegna bakmeiðsla. Hún skilur sátt við en hefði þó viljað beita rödd sinni betur á meðan ferlinum stóð og átti þá til að ganga fram af sér er hún glímdi við fíknisjúkdóm. Önnur verkefni taka nú við, þar á meðal að aðstoða aðra í fíknivanda.

Lára er 31 árs og á sigursælan feril að baki. Hún varð fimm sinnum Íslandsmeistari á sínum ferli, síðast með Val 2023. Hún lék með Fortuna Sittard í Hollandi síðasta vetur en fékk sérlega slæmt brjósklos í apríl sem hún er enn að glíma við.

„Það var bara mjög dramatískt að öllu leyti. Ég hef mjög verkjuð síðan þá og er það ennþá. En ég er hvergi bangin – ég mun ná mér,“ segir Lára í Sportpakkanum á Sýn.

Hún skilur þó sátt við ferilinn.

„Ég fann að það var engin eftirsjá og ég fann að þetta var farið að taka svolítið mikið af mér. Ég gekk oft svolítið fram af mér og svo fannst mér ákvörðunin tekin svolítið fyrir mig,“ segir Lára.

Oft gengið fram af líkama og sál

Lára glímdi við matarfíkn á meðan ferli hennar stóð sem tók sinn toll. Þegar hún segist hafa gengið fram af sér, var það bæði líkamlega og andlega.

„Bæði núna í þessum meiðslum fann ég hvað ég hef gengið fram af líkama mínum lengur en kannski heilbrigt getur talist. Það sem situr meira eftir er hvað ég setti oft fótboltann fram yfir mína andlegu heilsu og sinna mínum bata við mínum fíknisjúkdómi,“

„Ég fann um leið og ég hætti að spila fótbolta og var meidd hvað það varð allt auðveldara. Ég fann þá hvað það skipti mig meira máli, að halda heilbrigði frekar en að eltast við bolta, þó hann geti verið fallegur og skemmtilegur að elta,“ segir Lára og hlær.

Einblínt á ranga hluti

Lára birti pistil þegar hún tilkynnti um lokin á hennar ferli og sagði ákveðna eftirsjá að hafa ekki nýtt rödd sína betur á meðan ferlinum stóð. Bæði hvað varðar aðstöðu kvenna og jafnrétti innan íþrótta, en einnig hvað almennari nálgun varðar.

„Ég hef bara mikla skoðun á því hvernig við nálgumst þessa íþrótt og hvað hún getur verið árangursdrifin á röngum forsendum. Mér finnst við komin út í meiri einstaklingshyggju en ég myndi kjósa. Alveg frá yngri flokkum og alveg upp í meistaraflokk finnst mér við leggja áherslu á rangan hlut,“

Hjálpar öðrum að sigrast á fíkn

Hafandi sjálf reynslu af því að takast á við fíkn er það málefni sem stendur Láru nærri. Hún flutti heim frá Hollandi í sumar eftir að bakmeiðslin léku hana grátt í Hollandi og tók upp fyrri vinnu hjá Reykjavíkurborg auk þess sem hún stundar nám í fíknifræðum.

„Ég er að koma aftur inn í vinnu síðast þegar ég bjó síðast á Íslandi, áður en ég fór út til Hollands. Það er málaflokki heimilislausra í Reykjavík, svo er ég í meistaranámi í fíknifræðum. Það má alveg gera ráð fyrir því að ég tjái mig eitthvað meira um þau málefni,“

„En svo er bara að njóta lífsins með mínum maka og mínu fólki. Ég mun ekki sitja auðum höndum heima hjá mér,“ segir Lára.

Viðtalið má sjá í spilaranum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×