Innlent

Leitað að manni með öxi

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Lögregla á höfuðborgarsvæðinu hafði í ýmsu að snúast í nótt.
Lögregla á höfuðborgarsvæðinu hafði í ýmsu að snúast í nótt. Vísir/Vilhelm

Lögregla rannsakar nú mál þar sem tvö ungmenni eru sögð hafa veist að því þriðja, slegið með áhaldi og rænt. Atvikið er sagt hafa átt sér stað við verslunarmiðstöð.

Frá þessu er greint í yfirliti lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu yfir verkefni gærkvöldsins og næturinnar.

Þar greinir einnig frá tilkynningu um einstakling sem var sagður vera að veitast að fólki við skemmtistað, vopnaður öxi. Hann var farinn þegar lögregla mætti á vettvang. Leit var gerð að viðkomandi en án árangurs.

Lögregla var einnig kölluð til vegna líkamsárásar, þar sem áverkar voru minniháttar. Það mál er í rannsókn.

Tveir einstaklingar voru handteknir grunaðir um húsbrot en báðir voru ofurölvi og vistaðir í fangaklefa. Þeir eru grunaðir um að hafa framið annað húsbrot fyrr um daginn.

Þá var maður handtekinn eftir að hafa haldið vöku fyrir fólki með öskrum og látum, ber að ofan og skólaus. Hann var undir áhrifum, ósamvinnufús og viðskotaillur, samkvæmt yfirliti lögreglu.

Lögregla sinnti að auki útkalli vegna þjófnaðar í matvöruverslun og var kölluð til vegna mögulegs fjárbrots, þar sem einstaklingur er grunaður um að hafa notað greiðslukort annars án leyfis.

Hún rannsakar einnig þjófnað á skráningarnúmerum bifreiðar og skemmdarverk á „ferðavögnum“.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×