Erlent

Að­setur ríkis­stjórnarinnar logar eftir á­rásir næturinnar

Jón Ísak Ragnarsson skrifar
Reyk leggur yfir Kænugarð eftir árásir næturinnar.
Reyk leggur yfir Kænugarð eftir árásir næturinnar. AP

Rússar gerðu umfangsmestu eldflauga- og drónaárás frá upphafi innrásar í Úkraínu í nótt. Hið minnsta fjórir eru látnir, þar á meðal tveggja mánaða ungabarn, og aðsetur ríkisstjórnarinnar í Kænugarði varð fyrir skemmdum.

Yulia Svyrydenko, forsætisráðherra Úkraínu, sagði í færslu á Telegram að þetta væri í fyrsta sinn frá upphafi stríðs þar sem opinber bygging varð fyrir skemmdum.

Eldur logar í aðsetri ríkisstjórnarinnar í Kænugarði og slökkviliðsmenn hafa verið að fást við að ráða niðurlögum hans í morgun.

Selenskí Úkraínuforseti segir í færslu á Telegram að eftir fundinn í París í síðustu viku sýni slíkar árásir einbeittan brotavilja Rússa til að halda stríðinu áfram.

Samkvæmt upplýsingum frá Úkraínuher sendu Rússar rúmlega 800 dróna til Úkraínu í nótt og þrettán eldflaugar, en fram kemur að Úkraínumenn hafi skotið niður 751 dróna og fjórar eldlflaugar.

Rússar hafa aldrei sent jafnmarga dróna á einni nóttu frá upphafi stríðsins.

Einnig voru gerðar árásir á íbúðarbyggingu í Darytskyi héraði þar sem kona og ungabarn hennar létust.

Samkvæmt upplýsingum frá yfirvöldum í Zaporizhia héraði í Úkraínu eru skemmdir á sextán íbúðabyggingum, tólf einbýlishúsum, leikskóla og nokkrum verksmiðjum eftir árásir næturinnar. Minnst sautján eru sagðir hafa slasast.

Reuters




Fleiri fréttir

Sjá meira


×