Körfubolti

Klippti af sér „dreddana“ og samdi við Kefla­vík

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Craig Moller fórnaði hárinu og mætir því léttari til leiks í búningi Keflavíkur.
Craig Moller fórnaði hárinu og mætir því léttari til leiks í búningi Keflavíkur. @craigy_moller

Keflvíkingar hafa styrkt sig fyrir komandi tímabil í Bónus deild karla í körfubolta.

Framherjinn Craig Moller hefur samið við Keflavíkurliðið eins og kemur fram á miðlum félagsins.

Þetta er 203 sentimetra ástralskur/þýskur framherji sem mjög reynslumikill. Moller á að baki glæsilegan feril í Ástralíu, Nýja-Sjálandi og Þýskalandi.

Hann hefur leikið fyrir lið eins og Sydney Kings, Melbourne United og South East Melbourne Phoenix, auk þess að hafa spilað með Würzburg og Bamberg í Þýskalandi og nú síðast með Taranaki Airs í Nýja-Sjálandi.

Á síðasta tímabili var Moller með 15,3 stig, 11,4 fráköst og 2,9 stoðsendingar í leik en hann hitti úr 38 prósent þriggja stiga skota sinna.

Keflvíkingar létu fylgja með mynd af Moller þar sem hann er með myndarlega „dredda“. Þannig er nú ekki staðan á kappanum í dag.

Á dögunum gaf hann „dreddana“ sína í þágu góðs málefnis. Moller hafði verið með „dreddana“ í tuttugu ár eða frá árinu 2005.

Hann safnaði yfir þrjú þúsund dollurum fyrir Redkite samtökin á þremur vikum eða meira en 370 þúsund í íslenskum krónum.

Keflvíkingar eru því ekki bara að fá til sín góðan körfuboltamann heldur góðhjartaðan mann að auki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×