Enski boltinn

Guéhi ekki til Liver­pool

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Áfram hjá Palace.
Áfram hjá Palace. EPA/ANDY RAIN

Sky Sports greinir frá því að Marc Guéhi muni ekki ganga til liðs við Englandsmeistara Liverpool.

Það fór ekkert á milli mála að Liverpool vildi fá hinn 25 ára gamla Guéhi í sínar raðir. Palace var tilbúið að selja fyrirliða sinn þar sem hann á aðeins ár eftir af samningi sínum.

Þar sem ekki tókst að finna eftirmann Guéhi virðist vera sem Palace hafi ákveðið að halda í fyrirliða sinn og eiga frekar á hættu að missa hann frítt næsta sumar. Þetta þýðir einnig að Joe Gomez fer ekki til AC Milan þar sem Liverpool má ekki við því að missa varnarmanninn án þess að fá annan inn.

Guéhi ólst upp hjá Chelsea en hefur spilað með Palace frá 2021. Þá var hann á láni hjá Swansea City í tvö tímabil.

Miðvörðurinn hefur spilað 23 A-landsleiki fyrir England síðan hann lék sinn fyrsta A-landsleik árið 2022.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×