Fótbolti

Liverpool og Newcastle hafi náð sam­komu­lagi um Isak

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Alexander Isak er við það að ganga í raðir Liverpool.
Alexander Isak er við það að ganga í raðir Liverpool. George Wood/Getty Images

Félagsskiptasérfræðingurinn Fabrizio Romano fullyrðir að Liverpool hafi náð samkomulagi við Newcastle um kaup á sænska framherjanum Alexander Isak.

Romano segir að Liverpool muni greiða 130 milljónir punda fyrir Isak, sem myndi gera hann að dýrasta leikmanni ensku úrvalsdeildarinnar frá upphafi. Það samsvarar tæplega 21,6 milljörðum íslenskra króna.

Þá lætur Romano frasann sinn „Here we go“ fylgja með, sem þýðir yfirleitt að hann hafi rétt fyrir sér.

Sagan endalausa um eltingaleik Liverpool við Isak virðist því vera að nálgast endastöð. Félagið hefur reynt í nánast allt sumar að krækja í leikmanninn, en erfiðlega hefur gengið að sannfæra Newcastle um að selja stjörnuframherjann sinn.

Sjálfur hefur Isak reynt ýmislegt til að koma félagsskiptunum í gegn og hefur hann ekkert leikið með liðinu á nýja tímabilinu sökum þess.

Alexander Isak hefur leikið með Newcastle frá árinu 2022 og skorað 54 mörk í 84 deildarleikjum fyrir félagið. Áður lék hann með Real Sociedad þar sem hann sló fyrst í gegn.

Þá á þessi 25 ára Svíi að baki 52 landsleiki fyrir Svíþjóð þar sem hann hefur skorað 16 mörk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×