Körfubolti

Landsliðsmenn hita upp fyrir EM í Pallborðinu

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Sigurður Pétursson og Ólafur Ólafsson hita upp fyrir EM í Pallborðinu.
Sigurður Pétursson og Ólafur Ólafsson hita upp fyrir EM í Pallborðinu. vísir / grafík

Íslenska landsliðið hefur leik á EM í körfubolta í hádeginu á morgun með leik gegn Ísrael. Hitað verður vel upp fyrir leik morgundagsins og mótið allt í EM-Pallborðinu sem verður í beinni útsendingu á Vísi klukkan 14:00. Sigurður Pétursson og Ólafur Ólafsson mæta í settið.

Ólafur er fyrirliði Grindavíkur og hefur spilað meira en fimmtíu landsleiki fyrir Ísland. Sigurður á þrjá landsleiki fyrir Íslands hönd, hann samdi við Álftanes í sumar en hefur undanfarin tvö tímabil verið lykilmaður í liði Keflavíkur.

Báðir voru í tuttugu manna æfingahópnum sem landsliðsþjálfarinn Craig Pedersen valdi, en náðu ekki í gegnum niðurskurðinn.

Þeir munu veita sitt sérfræðiálit og Stefán Árni Pálsson, þáttastjórnandi Körfuboltakvölds, stýrir umræðunum.

Einnig munu fréttamenn Sýnar sem staddir eru á mótinu úti í Póllandi, Henry Birgir Gunnarsson og Valur Páll Eiríksson, veita áhorfendum innsýn í undirbúning landsliðsins fyrir fyrsta leik.

Ísland hefur leik gegn Ísrael klukkan 12 á morgun, fimmtudag. Eftir það eru svo að minnsta kosti fjórir leikir næstu átta daga gegn Belgíu, Póllandi, Slóveníu og Frakklandi.

Pallborðið hefst klukkan 14:00 og verður í beinni hér á Vísi og á sjónvarpsstöðinni Vísi, sem má nálgast í myndlyklum Sýnar (stöð 5) og Símans (stöð 8).




Fleiri fréttir

Sjá meira


×