Innlent

Einn hand­tekinn vegna líkams­á­rásar og annar vegna inn­brots

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Alls voru 56 mál bókuð í kerfi lögreglunnar í gærkvöldi og nótt.
Alls voru 56 mál bókuð í kerfi lögreglunnar í gærkvöldi og nótt. Vísir/Vilhelm

Einn var handtekinn á höfuðborgðarsvæðinu í gærkvöldi eða nótt grunaður um líkamsárás og annar grunaður um innbrot og þjófnað. Báðir voru vistaðir í fangageymslu.

Þá var einn ökumaður handtekinn grunaður um akstur undir áhrifum vímuefna en hann reyndist einnig hafa verið sviptur ökuréttindunum. Var hann látinn laus að lokinni blóðsýnatöku.

Nóttin virðist annars hafa verið með rólegra móti.

Ein tilkynning barst um óvelkomin einstakling í ruslageymslu og þá kom lögregla til aðstoðar vegna einstalings sem var að vera til ama á hóteli í miðborginni. 

Tveir ökumenn voru sektaðir og sviptir ökuréttindunum til bráðabirgða vegna hraðaksturs í Hafnarfirði og þá var aðstoðar óskað vegna tveggja umferðarslysa í Kópavogi.

Í öðru tilvikinu var ekið á gangandi vegfaranda en slysið var „minniháttar“ að því er segir í yfirliti lögreglu yfir verkefni næturinnar. Í hinu tilvikinu neyddist ökumaður til að víkja undan annarri bifreið og hafnað á vegriði.

Ein aftanákeyrsla átti sér stað og þá var einn ökumaður sektaður fyrir að nota farsíma við akstur án handfrjáls búnaðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×