Sport

Nýja stjarnan í þungavigtinni rotaði Whyte á innan við tveimur mínútum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Dillian Whyte mátti sín lítils gegn hinum bráðefnilega Moses Itauma.
Dillian Whyte mátti sín lítils gegn hinum bráðefnilega Moses Itauma. getty/Richard Pelham

Breski boxarinn Moses Itauma heldur áfram að klífa metorðastigann í þungavigtinni en í gær sigraði hann Dillian Whyte örugglega.

Gærdagurinn var stór fyrir hinn tvítuga Itauma en þetta var í fyrsta sinn sem bardagi hans var aðalnúmerið á bardagakvöldi. Á meðan er hinn 37 ára Whyte öllu vanur eftir langan feril.

Ekki var að sjá að Itauma væri stressaður því hann byrjaði bardagann af miklum krafti og eftir aðeins 119 sekúndur var hann búinn að rota Whyte.

Þetta var þrettándi sigur Itaumas í jafn mörgum bardögum sem atvinnumaður. Ellefu þessara bardaga hefur hann unnið með rothöggi. Aðeins tvisvar sinnum hafa bardagar Itaumas varað lengur en í tvær lotur.

Itauma er spáð miklum frama og eftir bardagann í gær sagðist hann vera tilbúinn fyrir hvað sem er þótt hann vilji ekki ana að neinu. Áhorfendur í Ríad í Sádi-Arabíu, þar sem bardaginn við Whyte fór fram, kölluðu nafn heimsmeistarans Oleksandrs Usyk en Itauma kvaðst ekki enn verðskulda að mæta honum.

Box



Fleiri fréttir

Sjá meira


×