Golf

Dag­bjartur Sigurbrandsson er Ís­lands­meistari í golfi 2025

Árni Jóhannsson skrifar
Dagbjartur Sigurbrandsson er Íslandsmeistari í golfi 2025.
Dagbjartur Sigurbrandsson er Íslandsmeistari í golfi 2025. gsimyndir.is

Íslandsmótinu í golfi lauk í dag á Hvaleyrarvelli í Hafnarfirði. Dagbjartur Sigurbrandsso er Íslandsmeistari árið 2025 eftir æsispennandi lokahring og lokaholu. Dagbjartur lauk leik á fimm undir pari.

Axel Bóasson hafði leitt fyrir daginn í dag en hafði tapað þeirri forystu í hendurnar á Dagbjarti Sigurbrandssyni þegar upphafshöggið á 18 holu var slegið. Axel var á fjórum höggum undir pari en Dagbjartur á fimm höggum undir pari á þeim tímapunkti.

Axel sló frábært upphafshögg á 18. holunni, u.þ.b. 350 metra og kom sér í góða stöðu en Dagbjartur náði ekki alveg jafn góðu höggi og lenti í karganum. Dagbjartur átti þó frábært annað högg og kom sér í fuglafæri en náði ekki að setja það niður þó það hafi minnstu munað. 

Axel Bóason var einnig í fuglafæri eftir annað höggið en hann náði ekki að nýta tækifærið til að koma sér í umspil um Íslandsmeistaratitilinn. Hann náði pari á lokaholunni eins og Dagbjartur Sigurbrandsson sem vann sinn fyrsta Íslandsmeistaratitil. Dagbjartur lék á pari í dag og lauk leik á fimm höggum undir pari. Dagbjartur er úr Golfklúbbi Reykjavíkur og er 23 ára gamall og er einn af okkar efnilegri kylfingum.

Axel Bóasson lauk leik á fjórum undir pari og lenti í öðru sæti. Aron Snær Júlíusson lenti síðan í þriðja sæti en hann lauk leik á tveimur höggum undir pari.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×