Sport

Rekinn fyrir að kyssa liðsfélaga sinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Christian Wilkins er mjög öflugur varnarmaður en Las Vegas Raiders vildi ekki hafa hann lengur hjá sér.
Christian Wilkins er mjög öflugur varnarmaður en Las Vegas Raiders vildi ekki hafa hann lengur hjá sér. Getty/Ethan Miller

NFL stjarnan Christian Wilkins var látinn taka pokann sinn hjá Las Vegas Raiders á dögunum en kringumstæður brottrekstursins þykja afar furðulegar.

Wilkins fékk nýjan risasamning hjá Raiders á síðasta ári eða 110 milljónir Bandaríkjadala fyrir fjögurra ára samning. Hann varð þar með næstlaunahæsti varnarmaður liðsins.

Leikmaðurinn öflugi náði þó aðeins að spila fimm leiki áður en hann meiddist það illa að hann missti af nær öllu síðasta tímabili.

Þegar fréttir bárust fyrst af því að Raiders hafði látið hann fara var ýjað að því að ástæðan væri að hann og félagið væru ekki sammála um hvernig haga ætti endurhæfingunni. Annað hefur nú komið á daginn.

NFL skúbbarinn Adam Schefter hefur það eftir leikmönnum úr búningsklefa liðsins að Wilkins hafi reynt að kyssa liðsfélaga sinn. Hann hafi kysst viðkomandi og í léttu gíni samkvæmt lýsingu Schefter.

„Liðsfélagi hans var allt annað en sáttur. Þetta er það sem gerðist en enginn þorir að segja opinberlega,“ sagði Adam Schefter

Pete Carroll, þjálfari Raiders, hafði áður sagt um brottreksturinn að félagið setti miklar kröfur á sína leikmenn, bæði innan og utan vallar. Eins og hann sé að tala í kringum ástæðuna en um leið að hún snúist um hegðun leikmannsins.

Wilkins átti inni 35,2 milljónir dollara af samningi sínum. Kosinn kostaði hann því líklegast 4,3 milljarða króna.

NFL



Fleiri fréttir

Sjá meira


×