Viðskipti innlent

Sjó­mönnum sagt upp: Skipu­lags­breytingar vegna veiðigjalda

Árni Sæberg skrifar
Úr fiskvinnslu Einhamars í Grindavík.
Úr fiskvinnslu Einhamars í Grindavík. Einhamar

Öllum fjórum sjómönnum Einhamars í Grindavík var sagt upp störfum um mánaðamótin. Að sögn eigandans er þó aðeins um skipulagsbreytingar að ræða og öllum verði boðin staða á ný um áramótin að loknum sex mánaða uppsagnarfresti. Ástæður breytinganna séu minnkandi aflaheimildir og hækkuð veiðigjöld.

Þetta staðfestir Stefán Kristjánsson, forstjóri og eigandi Einhamars, í samtali við Vísi. Ríkisútvarpið greinir frá því í dag að öllum sjómönnum fyrirtækisins hafi verið sagt upp störfum um mánaðamótin. 

Sameina stöður

„Þetta er nú ekki alveg rétt hjá þeim. Jú, jú, það eru fjórir sjómenn hjá Einhamri og þeim var sagt upp um mánaðamótin en þeir verða endurráðnir um áramótin. Þeim er sagt upp með sex mánaða fyrirvara. Ástæðan er skipulagsbreytingar. Það er verið að sameina stöður stýrimanns og vélstjóra. Ástæðan er minnkandi aflaheimildir, veiðigjöld og frekar dökkt útlit fram undan varðandi fiskistofna og úthlutun aflaheimilda. Rúv er bara að bulla,“ segir Stefán.

Þannig verði stöðum hjá félaginu ekki fækkað en auðvitað geti komið eitthvað los á mannskapinn með stöðubreytingum. „Þú þarft kannski ekki tvo vélstjóra ef þú þarft bara einn. Þetta er allt samkvæmt kjarasamningum og lögum um áhafnir skipa.“

Vinna að hefjast á ný

Annars sé vinna að hefjast á ný eftir sumarfrí, byrjað sé að flaka og vinnsla sé að fara á fullt í þessari annarri tveggja fiskvinnsla í Grindavík.

„Við höldum áfram að taka slaginn við náttúruna og stjórnvöld og Rúv.“

Í frétt Ríkisútvarpsins segir að Stefán hafi ekki svarað fyrirspurnum fréttastofu þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×