Viðskipti innlent

„Við erum að bæta við at­vinnu­stoð í sam­félaginu“

Smári Jökull Jónsson skrifar
Óskar Jósúason er upplýsingafulltrúi Laxeyjar í Vestmannaeyjum.
Óskar Jósúason er upplýsingafulltrúi Laxeyjar í Vestmannaeyjum. Vísir/Ívar Fannar/Vilhelm

Uppbygging Laxeyjar í Vestmannaeyjum er stærsta einkaframkvæmd í sögu eyjanna. Stækka þurfti hlutafjárútboð fyrirtækisins í sumar vegna umframeftirspurnar en stefnt er á fyrstu slátrun laxa í nóvember.

Laxey hóf framleiðslu á seiðum í nóvember 2023. Þegar landeldið verður komin í fulla framleiðslu er stefnt á að þar verði framleidd 42.000 tonn af laxi á ári og gert ráð fyrir að þar muni starfa um eitt hundrað manns. Óskar Jósúason, upplýsingafulltrúi fyrirtækisins, segir um að ræða stærstu einkaframkvæmd í sögu Vestmannaeyja.

„Við erum að bæta við atvinnustoð í samfélaginu, erum að búa til nýja atvinnugrein. Það gefur ungu fólki tækifæri í að mennta sig á þessu. Við erum mjög stoltir af því að við erum nú þegar með unga einstaklinga sem hafa lært fiskeldisfræði á Hólum og fleiri á leiðinni,“ sagði Óskar í viðtali í kvöldfréttum Sýnar.

Stefnt á slátrun í nóvember

Samtals hefur Laxey safnað 150 milljónum evra í hlutafé en stækka þurfti útboð fyrirtækisins fyrr í sumar vegna umframeftirspurnar. Seiðastöð félagsins er staðsett í Friðarhöfn inns á hafnarsvæðinu í Eyjum en fiskeldisker í Viðlagafjöru í hrauninu.

„Seiðastöðin er komin í fullan rekstur og mun framleiða 4,5 milljónir seiða á hverju ári. Úti í fjöru eru komin fimm fiskeldisker í notkun og við erum að stefna á fyrstu slátrun í nóvember,“ segir Óskar.

„Þurfum ekki að hafa eins miklar áhyggjur af smitsjúkdómum“

Aukningin hlutafjársins tryggði fjármögnun á stórseiðahúsi sem staðsett verður í Viðlagafjöru þar sem fiskeldisker fyrirtækisins eru staðsett. Þar standa yfir gríðarmiklar framkvæmdir en laxinn verður fluttur í kerin þegar hann er tilbúinn að fara í sjó. Sjórinn í kerjunum er tekinn úr borholum á landi.

„Við erum að taka sjó sem hefur ekki verið í snertingu við aðrar sjávarlífverur. Þá þurfum við ekki að hafa eins miklar áhyggjur af smitsjúkdómum og öðru slíku. Þá sleppum við við notkun á sýklalyfjum fyrir laxinn. Við erum að skapa eins góðar aðstæður og hægt er fyrir laxinn að vaxa og dafna í.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×