Innlent

Mygla fannst á bæjar­skrif­stofunum

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Mögulega þarf að tvístra starfsfólkinu.
Mögulega þarf að tvístra starfsfólkinu. Vísir/Arnar

Mygla fannst á bæjarskrifstofunum á Seltjarnarnesi og hluti húsnæðisins verður lokað. Minnst tveir starfsmenn hafa fundið fyrir einkennum af völdum myglunnar.

Morgunblaðið greindi fyrst frá.

Þór Sigurgeirsson bæjarstjóri segir að verið sé að skoða sviðsmyndir en að ljóst sé að ekki verði hægt að halda áfram að nota húsnæðið undir störf bæjarins. Bleyta hafi fundist undir gólfdúkum á jarðhæðinni en bæjarskrifstofurnar eru á tveimur neðstu hæðum fjölbýlishúss að Austurströnd 2.

„Við þurfum að loka jarðhæðinni og koma starfsfólkinu í var. Tveir eða þrír starfsmenn hafa fengið einkenni. Við erum að púsla saman plani hvað varðar það,“ segir Þór en bætir við að of snemmt sé að segja til um úrlausn.

Hann segir að verið sé að skoða að dreifa starfsfólki bæjarins á annað húsnæði á vegum hans og kemur þar til dæmis Bókasafn Seltjarnarness til greina. Mögulega þurfi að tvístra mannaflanum.

Seltjarnarnesbær lauk nýlega við viðgerðir vegna myglu í tveimur skólahúsum en hún fannst einmitt um svipað leyti fyrir tveimur árum síðan. Þór segir glatað að hann og starfsfólk bæjarins þurfi aftur að standa í þessu um hásumar en að:

„Bæjarstjórinn er á vaktinni og hann finnur út úr þessu.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×