Körfubolti

Hentu frá sér leiknum með hör­mungar­byrjun á seinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hilmir Arnarsson var langstigahæstur á móti Rúmenum í dag.
Hilmir Arnarsson var langstigahæstur á móti Rúmenum í dag. FIBA Basketball

Íslenska tuttugu ára landslið karla tapaði með fimmtán stiga mun á móti Rúmeníu í dag, 72-57, í baráttunni um sæti níu til sextán í A-deild Evrópumótsins.

Íslenska liðið gerði vel framan af leik en þegar leið á leikinn hertu Rúmenar vörnina og kláruðu leikinn sannfærandi.

Sigur hefði tryggt íslensku strákunum áframhaldandi veru í A-deildinni en liðið fær annan möguleika til þess í næsta leik.

Hilmir Arnarsson var atkvæðamestur í íslenska liðinu með 23 stig en hitti aðeins úr 3 af 13 þriggja stiga skotum sínum.

Lars Erik Bragason var með 12 stig, 5 fráköst og 3 stolna bolta.

Friðrik Leó Curtis skoraði níu stig en þau komu öll þegar vel gekk í upphafi leiks.

Íslensku strákarnir tóku frumkvæðið í fyrsta leikhlutanum, komust mest sjö stigum yfir en leiddu 22-20 eftir hann. Hilmir Arnarsson skoraði 10 stig í fyrsta leikhlutanum.

Íslenska liðið skoraði sjö fyrstu stigin í öðrum leikhluta og náði í framhaldinu níu stiga forskoti en í hálfleik munaði fjórum stigum á liðunum, 39-35.

Í seinni hálfleik lenti íslensku strákarnir á rúmenskum vegg.

Rúmenarnir komu mjög grimmir eftir hálfleikinn og skoruðu fimmtán fyrstu stig seinni hálfleiks og voru komnir 50-39 yfir.

Eftir það var mjög á brattann að sækja og íslenska liðinu tókst ekki að koma sér aftur inn í leikinn.

Þeir minnkuðu reyndar muninn í fimm stig fyrir lokaleikhlutann, 53-38, en Rúmenarnir byrjuð fjórða leikhlutann síðan á 9-0 spretti og voru komnir aftur fjórtán stigum yfir, 62-48. Eftir það var ljóst hvernig færi.

Töpuðu boltarnir voru mikið vandamál enda 28 samtals. Fimm leikmenn liðsins voru með fjóra eða fleiri tapaða bolta og rúmenska liðið skoraði 39 stig eftir töpuðu bolta íslensku strákanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×