Enski boltinn

Um­boðs­menn Gyökeres lentir í London og hann sagður á leið í Arsenal

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Viktor Gyökeres varð bæði markakóngur og meistari með Sporting á síðustu leiktíð.
Viktor Gyökeres varð bæði markakóngur og meistari með Sporting á síðustu leiktíð. Getty/Valter Gouveia

Það er fátt sem kemur í veg fyrir það að Arsenal fái loksins alvöru markaskorara í liðið sitt, eitthvað sem flestir telja að hafi vantað í liðið undanfarin tímabil.

Stórskúbbarinn Fabrizio Romano segir að það eigi aðeins eftir að ganga frá smáatriðunum. Það má búast við „Here we go“ frá honum fljótlega.

Umboðsmenn sænska framherjans Viktors Gyökeres eru komnir til London til að landa þessu. Gyökeres bíður síðan eftir grænu ljósi til að ferðast sjálfur til Englands til að fara í læknisskoðun og skrifa undir samning.

Arsenal borgar Sporting 63,5 milljónir punda plús tíu milljónir punda í árangurstengdar greiðslur.

Viktor Gyökeres hefur neitað að æfa með portúgalska liðinu Sporting sem fór mjög illa í forseta félagsins.

Bæði Gyökeres og umboðsmaður hans eru sagðir hafa boðið að gefa eftir pening til þess að ná samningnum yfir línuna.

Sporting vildi fá meira fyrir Gyökeres en Arsenal var að bjóða í fyrstu. Það komst aftur á móti hreyfing á málið í gærkvöldi og sænski framherjinn gæti orðið leikmaður Arsenal á næstu dögum.

Viktor Gyökeres skoraði 54 mörk í 52 leikjum í öllum keppnum á síðustu leiktíð þar af 39 mörk í 33 leikjum í portúgölsku deildinni og sex mörk í átta leikjum í Meistaradeildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×