Handbolti

Hafnaði á­gengum Egyptum en er til í að taka við félagsliði

Valur Páll Eiríksson skrifar
Snorri Steinn Guðjónsson þurfti að berja af sér ágenga Egypta en útilokar ekki að þjálfa félagslið samhliða landsliðinu.
Snorri Steinn Guðjónsson þurfti að berja af sér ágenga Egypta en útilokar ekki að þjálfa félagslið samhliða landsliðinu. Vísir/Vilhelm

Snorri Steinn Guðjónsson, landsliðsþjálfari karla í handbolta, hafnaði tilboði frá egypska félaginu Zamalek um að gerast þjálfari þess, og það ítrekað. Hann segist opinn fyrir því að þjálfa félagslið samhliða starfi sínu hjá HSÍ.

Handkastið.net greindi frá tíðindunum í morgun. Snorri Steinn hafi verið í viðræðum við Zamalek, sem er einn tveggja risa í egypskum handbolta. Í samtali við Vísi segir Snorri Steinn Egyptana hafa verið ágenga í sókn sinni eftir kröftum hans og hann hafnað liðinu ítrekað.

„Ég hafnaði því. Þeir gengu heldur vasklega fram. Það er kannski best að orða það þannig. Þeir sýndu mikinn áhuga og þetta stóð yfir í svona mánuð sirka. Ég er nú búinn að hafna þessu nokkrum sinnum en þeir voru þrautseigir,“ segir Snorri Steinn í samtali við íþróttadeild.

Aðspurður um hvort starfið hafi heillað segir hann:

„Nógu mikið til að ég ræddi við þá. En ég fór ekkert út [að hitta forráðamenn félagsins] eða svoleiðis. Þetta heillaði alveg eitthvað, en eitt og annað. Tímapunkturinn hentaði mér ekki persónulega, og fjölskyldunni,“ segir Snorri Steinn.

Heyrir reglulega frá félagsliðum

Snorri kveðst reglulega fá fyrirspurnir frá félagsliðum vegna þjálfarastarfs. Það er alþekkt í handboltaheiminum að þjálfara sinni félagsliði samhliða landsliðsþjálfarastarfi. Taki Snorri Steinn við félagsliði þýðir það því ekki að hann hætti með Ísland, heldur sinni báðu.

Hann kveðst opinn fyrir því að koma sér aftur í félagsliðaboltann, eftir að hafa hætt með Val til að taka við landsliðinu árið 2023.

„Það kemur alveg fyrir [að hann heyri frá félagsliðum]. Það rignir ekkert inn símtölum en þegar þú ert landsliðsþjálfari þá ertu kannski meira á markaðnum en ef þú ert með félagslið. Ég hef ekkert verið að leitast eftir því eða viljað það, þannig séð. Ég finn það kannski aðeins fyrst núna að mig langar ef til vill í eitthvað meira. En hitt [landsliðsþjálfarastarfið] er alveg nógu krefjandi þegar verkefnin standa yfir allavega,“ segir Snorri Steinn.

Ekki eirðarlaus en til í daglega vinnu

Er sem sagt komið eitthvað eirðarleysi í þig?

„Ég segi ekki eirðarleysi en ég finn mun á því þegar ég tók fyrst við landsliðinu. Þá vildi ég bara komast inn í það og fannst þá gott að vinna bara með landsliðið; að setja mig inn í það, og venjast því og kynnast því umhverfi. Ég segi ekki að maður sé fulllærður í því en mér finnst ég kominn inn í þá rútínu og veit hvað ég er að fara út í. Að því leytinu til, ég segi ekki að ég sé að leita [að starfi hjá félagsliði] en ég er opnari fyrir einhverju öðru samhliða landsliðsþjálfarastarfinu,“ segir Snorri Steinn sem virðist sakna þess að vera á þjálfaragólfinu dagsdaglega. Landsliðsþjálfarastarfið takmarkast við örfáa landsliðsglugga á ári.

Eðlilega þurfi þó ávallt að taka fjölskylduaðstæður inn í myndina.

„Ég á konu og þrjú börn og þetta er mikið púsluspil og það er kannski fyrst og fremst sem setti strik í reikninginn varðandi Egyptaland,“ segir Snorri Steinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×