Fótbolti

Mínútu þögn fyrir leik Portúgals í kvöld

Valur Páll Eiríksson skrifar
Minning Jota verður heiðruð á leik Portúgals við Spán á EM kvenna í kvöld.
Minning Jota verður heiðruð á leik Portúgals við Spán á EM kvenna í kvöld. Samsett/Getty

Minning portúgalska landsliðsmannsins Diogo Jota og bróður hans Andre Silva verður heiðruð fyrir leik kvennalandsliðs Portúgals við Spán á EM í kvöld. Jota og Silva létust í bílslysi í nótt.

Slysið átti sér stað í Zamora-héraði Spánar á A-52 þjóðveginum rétt norðan við Portúgal. Dekk sprakk á bíl bræðranna þegar þeir tóku fram úr öðrum bíl með þeim afleiðingum að bíllinn fór út af veginum og þeir létust.

Fjölmargir hafa heiðrað minningu þeirra, þar meðal lið Jota, Liverpool og forseti portúgalska knattspyrnusambandsins, Pedro Proenca.

„Portúgalska knattspyrnusambandið og öll portúgölsk knattspyrna er gjörsamlega miður sín eftir andlát Diogo Jota og bróður hans André Silva í morgun á Spáni,“ segir meðal annars í yfirlýsingu Proenca.

Í sömu yfirlýsingu kom fram að portúgalska knattspyrnusambandið hafi sent beiðni til Knattspyrnusambands Evrópu, UEFA, að halda mínútu þögn til að heiðra minningu bræðranna fyrir leik Portúgals við Spán á EM kvenna í kvöld.

Breska ríkisútvarpið, BBC, staðfestir að svo verði með vísan í UEFA. Portúgal og Spánn eigast við í B-riðli mótsins klukkan 19:00 í kvöld. Belgía og Ítalía mætast í sama riðli klukkan 16:00.


Tengdar fréttir

Diogo Jota lést í bílslysi

Diogo Jota, leikmaður Liverpool í ensku úrvalsdeildinni, er látinn eftir að hafa lent í bílslysi í nótt á Spáni. Bróðir hans var með honum í bílnum og lést einnig. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×