Viðbúin því versta Ólafur Þ. Stephensen skrifar 17. ágúst 2012 06:00 Yfirmenn íslenzku lögreglunnar liggja nú yfir skýrslu 22. júlí-nefndarinnar um hryðjuverkin í Ósló og Útey í fyrra, eins og fram kom í Fréttablaðinu í gær. Víðir Reynisson, yfirmaður almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra, sagði í samtali við blaðið að norska lögreglan hefði þegar deilt með íslenzkum starfssystkinum sínum upplýsingum um hvað hún hefði talið vel gert og hvað illa í viðbrögðum við hryðjuverkunum. Nú væri komin óháð skýrsla og ætlunin væri að nýta reynslu Norðmanna til að bæta viðbúnað íslenzku lögreglunnar. Fyrir liggur að áætlunum og verklagsreglum verði breytt. Þetta viðhorf íslenzku lögreglunnar og samstarf við lögreglulið nágrannalandanna er nauðsynlegt, ef Ísland á að vera í stakk búið að bregðast við svipuðum hörmungaratburðum og urðu í Noregi í fyrra. Við getum sagt sem svo að slíkt sé ekki líklegt, en það héldu Norðmenn líka þangað til 22. júlí í fyrra. Við getum í raun ekki leyft okkur annað en að vera viðbúin hinu versta. Í skýrslu 22. júlí-nefndarinnar segir einmitt að til að geta brugðizt við áfalli eins og hryðjuverkaárás skipti undirbúningurinn öllu máli. Hvernig svo gangi að bregðast við árás sé fyrst og fremst prófsteinn á það hversu góður undirbúningurinn var. Ein af orsökum þess að margt fór úrskeiðis í viðbrögðum norskra yfirvalda við hryðjuverkunum hafi verið að menn hafi ekki verið nógu reiðubúnir að viðurkenna hættuna og læra af þeim æfingum, sem farið höfðu fram. Skýrsla 22. júlí-nefndarinnar er að sjálfsögðu skyldulesning fyrir stjórnendur lögreglunnar, en það ætti hún líka að vera fyrir stjórnmálamennina, sem ákveða rammann um starfsemi hennar. Meðal þess sem gagnrýnt er í skýrslunni er skortur á viðbragðsflýti hjá sérsveitum norsku lögreglunnar. Norska öryggislögreglan fær þar líka sinn skammt fyrir að nýta sér ekki forvirkar rannsóknarheimildir sínar sem skyldi og afla ekki nægilegra upplýsinga. Lögreglunni barst listi um fólk, sem keypt hafði efni sem hægt er að nota til sprengjugerðar. Á honum var nafn Anders Behring Breivik. Listinn lá enn órannsakaður hjá öryggislögreglunni þegar Breivik myrti 77 manns. Nefndin telur að hefði öryggislögreglan fylgt ábendingunni eftir og rannsakað hagi Breiviks, hefði hugsanlega mátt koma í veg fyrir hryðjuverkin, þótt ekki sé hægt að slá slíku föstu. Þetta mættu þeir stjórnmálamenn gjarnan lesa, sem hlupu upp til handa og fóta fyrir nokkrum árum þegar sérsveit lögreglunnar var efld, meðal annars með hliðsjón af hryðjuverkahættu. Þeir sem fóru hamförum í þingsölum þegar greiningardeild lögreglunnar var stofnuð og æptu um „njósnir" og „leyniþjónustu" hefðu líka gott af lestrinum. Í þeim hópi eru til dæmis bæði núverandi innanríkisráðherra og utanríkisráðherra. Þeir, sem enn eru tregir til að veita lögreglunni sömu heimildir og lögreglulið á Norðurlöndum hafa til að fylgjast með grunsamlegum einstaklingum sem gætu haft hryðjuverk í huga, ættu líka að leggjast rækilega yfir skýrsluna. Við þurfum að vera viðbúin hinu versta og lögreglan þarf að hafa mannskap, tæki, þjálfun og lagaheimildir til þess bæði að fyrirbyggja hryðjuverk og bregðast við þeim. Það er stjórnmálamannanna að tryggja það. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Hryðjuverk í Útey Ólafur Stephensen Mest lesið Halldór 27.03.2024 Halldór Yfirgangur, yfirlæti og endastöð Strætó Axel Hall Skoðun Hugsum fíknivanda upp á nýtt - Ný nálgun í meðhöndlun fíknivanda og áhættuhegðunar Svala Jóhannesdóttir,Lilja Sif Þorsteinsdóttir Skoðun Tímamót í sjálfsvígsforvörnum Ingibjörg Isaksen Skoðun Hættur heimsins virða engin landamæri Tótla I. Sæmundsdóttir Skoðun Við viljum tala íslensku, en hvernig Ólafur Guðsteinn Kristjánsson Skoðun Mansalsmál á Íslandi Kristján Þórður Snæbjarnarson Skoðun Umbúðir en ekkert innihald í Hafnarfirði Einar Geir Þorsteinsson Skoðun Það eru fleiri fiskar í sjónum og fleiri sjónarmið í hafstjórn Guðbjörg Ásta Ólafsdóttir Skoðun Sumt er bara ekki hægt að rökræða Ása Lind Finnbogadóttir Skoðun
Yfirmenn íslenzku lögreglunnar liggja nú yfir skýrslu 22. júlí-nefndarinnar um hryðjuverkin í Ósló og Útey í fyrra, eins og fram kom í Fréttablaðinu í gær. Víðir Reynisson, yfirmaður almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra, sagði í samtali við blaðið að norska lögreglan hefði þegar deilt með íslenzkum starfssystkinum sínum upplýsingum um hvað hún hefði talið vel gert og hvað illa í viðbrögðum við hryðjuverkunum. Nú væri komin óháð skýrsla og ætlunin væri að nýta reynslu Norðmanna til að bæta viðbúnað íslenzku lögreglunnar. Fyrir liggur að áætlunum og verklagsreglum verði breytt. Þetta viðhorf íslenzku lögreglunnar og samstarf við lögreglulið nágrannalandanna er nauðsynlegt, ef Ísland á að vera í stakk búið að bregðast við svipuðum hörmungaratburðum og urðu í Noregi í fyrra. Við getum sagt sem svo að slíkt sé ekki líklegt, en það héldu Norðmenn líka þangað til 22. júlí í fyrra. Við getum í raun ekki leyft okkur annað en að vera viðbúin hinu versta. Í skýrslu 22. júlí-nefndarinnar segir einmitt að til að geta brugðizt við áfalli eins og hryðjuverkaárás skipti undirbúningurinn öllu máli. Hvernig svo gangi að bregðast við árás sé fyrst og fremst prófsteinn á það hversu góður undirbúningurinn var. Ein af orsökum þess að margt fór úrskeiðis í viðbrögðum norskra yfirvalda við hryðjuverkunum hafi verið að menn hafi ekki verið nógu reiðubúnir að viðurkenna hættuna og læra af þeim æfingum, sem farið höfðu fram. Skýrsla 22. júlí-nefndarinnar er að sjálfsögðu skyldulesning fyrir stjórnendur lögreglunnar, en það ætti hún líka að vera fyrir stjórnmálamennina, sem ákveða rammann um starfsemi hennar. Meðal þess sem gagnrýnt er í skýrslunni er skortur á viðbragðsflýti hjá sérsveitum norsku lögreglunnar. Norska öryggislögreglan fær þar líka sinn skammt fyrir að nýta sér ekki forvirkar rannsóknarheimildir sínar sem skyldi og afla ekki nægilegra upplýsinga. Lögreglunni barst listi um fólk, sem keypt hafði efni sem hægt er að nota til sprengjugerðar. Á honum var nafn Anders Behring Breivik. Listinn lá enn órannsakaður hjá öryggislögreglunni þegar Breivik myrti 77 manns. Nefndin telur að hefði öryggislögreglan fylgt ábendingunni eftir og rannsakað hagi Breiviks, hefði hugsanlega mátt koma í veg fyrir hryðjuverkin, þótt ekki sé hægt að slá slíku föstu. Þetta mættu þeir stjórnmálamenn gjarnan lesa, sem hlupu upp til handa og fóta fyrir nokkrum árum þegar sérsveit lögreglunnar var efld, meðal annars með hliðsjón af hryðjuverkahættu. Þeir sem fóru hamförum í þingsölum þegar greiningardeild lögreglunnar var stofnuð og æptu um „njósnir" og „leyniþjónustu" hefðu líka gott af lestrinum. Í þeim hópi eru til dæmis bæði núverandi innanríkisráðherra og utanríkisráðherra. Þeir, sem enn eru tregir til að veita lögreglunni sömu heimildir og lögreglulið á Norðurlöndum hafa til að fylgjast með grunsamlegum einstaklingum sem gætu haft hryðjuverk í huga, ættu líka að leggjast rækilega yfir skýrsluna. Við þurfum að vera viðbúin hinu versta og lögreglan þarf að hafa mannskap, tæki, þjálfun og lagaheimildir til þess bæði að fyrirbyggja hryðjuverk og bregðast við þeim. Það er stjórnmálamannanna að tryggja það.
Hugsum fíknivanda upp á nýtt - Ný nálgun í meðhöndlun fíknivanda og áhættuhegðunar Svala Jóhannesdóttir,Lilja Sif Þorsteinsdóttir Skoðun
Hugsum fíknivanda upp á nýtt - Ný nálgun í meðhöndlun fíknivanda og áhættuhegðunar Svala Jóhannesdóttir,Lilja Sif Þorsteinsdóttir Skoðun