Skylmingamaðurinn Ólafur Stephensen skrifar 2. júlí 2012 10:15 Árangur Ólafs Ragnars Grímssonar í forsetakjörinu er fyrst og fremst sigur hins pólitíska vígamanns. Hann hefur enn einu sinni snúið á andstæðinga sína. Ólafi hefur tekizt að breyta sér í hag pínlegri stöðu í upphafi kjörtímabils, þar sem hrunið setti málflutning hans í þágu útrásarvíkinganna og meðfæddra yfirburða þjóðarinnar á viðskiptasviðinu í fremur hrollvekjandi ljós. Honum hefur tekizt að spila á óvinsældir ríkisstjórnarinnar, andúð almennings á kröfum á hendur Íslandi í Icesave-málinu og efasemdir fólks um aðild að Evrópusambandinu. Honum hefur meira að segja tekizt að telja stórum hluta stuðningsmanna Sjálfstæðis- og Framsóknarflokksins trú um að þeir eigi samleið með honum í hinni nýju forsetapólitík. Þeir eiga auðvitað eftir að komast að hinu gagnstæða, fari svo að þessir flokkar komist í ríkisstjórn. Ólafur hafði sigur í kosningabaráttunni, þar sem í upphafi leit út fyrir að hann gæti farið halloka. Þar bjó hann að langri reynslu í pólitískum orðaskylmingum og sýndi fimi sína í því að koma höggi á veika bletti andstæðinga sinna af hæfilegri ósvífni. Við þessu áttu mótframbjóðendur hans ekkert svar, enda hefur enginn þeirra neina reynslu af slíkri pólitískri vígfimi. Samt er það ekki svo að Ólafur Ragnar standi með pálmann í höndunum eftir forsetakosningarnar. Hann gengur býsna vígmóður af þessum orrustuvelli. Aldrei áður hefur sitjandi forseti fengið jafnfá atkvæði þegar hann hefur verið skoraður á hólm. Þótt nærri 53 prósenta fylgi sé afgerandi niðurstaða, er það engu að síður niðurlægjandi fyrir forseta sem hefur haft sextán ár til að ná til þjóðarinnar, að 47 prósent kjósenda skuli hafna honum og segja með því álit sitt á því hvernig hann hefur hagað störfum sínum í embætti. Þjóðin skiptist í nánast jafnar fylkingar með og á móti forsetanum. Niðurstaðan er þeim mun vandræðalegri fyrir hann vegna þess hvað reynslu- og erindisleysi mótframbjóðendanna var að mörgu leyti hróplegt. Þessi málalok undirstrika hvers konar forseti Ólafur Ragnar Grímsson er. Hann er ekki maður sem sameinar þjóðina á erfiðum tímum, heldur rær undir með öflum sundrungar. Hann blandar sér í hatrammar deilur um pólitískt viðkvæm mál, aðallega til að styrkja eigin stöðu. Einhver hefði haldið að nú vildi forsetinn reyna að ná til 47 prósentanna, sem ekki vildu hann, og fylkja þjóðinni að baki sér. Fátt bendir hins vegar til að Ólafur Ragnar Grímsson ætli að breyta um takt á síðasta kjörtímabili sínu (ef við megum þá treysta því að það sé hans síðasta, sem reynslan kennir okkur að við ættum ekki endilega að gera). Fyrirheit hans um öflugri þátttöku í opinberri umræðu á nýju kjörtímabili benda ekki til að forsetinn ætli að leita sátta og samstöðu. Hann verður áfram í pólitísku skylmingunum, sem honum þykja svo skemmtilegar, í stað þess að bera klæði á vopnin. Hvort það er þjóðinni fyrir beztu er allt önnur saga. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Ólafur Stephensen Mest lesið Tæknin á ekki að nota okkur Anna Laufey Stefánsdóttir Skoðun Nám í skugga óöryggis Sigurður Árni Reynisson Skoðun Það eru allir að greinast með þetta POTS – hvað er það? Hanna Birna Valdimarsdóttir Skoðun Umgengnistálmanir – brot á réttindum barna Einar Hugi Bjarnason Skoðun Takk starfsfólk og forysta ÁTVR Siv Friðleifsdóttir Skoðun Meðsek um þjóðarmorð vegna aðgerðaleysis? Pétur Heimisson Skoðun 90099-22@#MeToo Ívar Halldórsson Skoðun Þeir sem búa til kerfið – svar til Diljár Ámundadóttur Zoega Valgerður Sigurðardóttir Skoðun Tóbakslaust Ísland! - Með hjálp stefnu um skaðaminnkun Bjarni Freyr Guðmundsson Skoðun Hættum að fjárfesta í fortíðinni! Andrés Ingi Jónsson Skoðun
Árangur Ólafs Ragnars Grímssonar í forsetakjörinu er fyrst og fremst sigur hins pólitíska vígamanns. Hann hefur enn einu sinni snúið á andstæðinga sína. Ólafi hefur tekizt að breyta sér í hag pínlegri stöðu í upphafi kjörtímabils, þar sem hrunið setti málflutning hans í þágu útrásarvíkinganna og meðfæddra yfirburða þjóðarinnar á viðskiptasviðinu í fremur hrollvekjandi ljós. Honum hefur tekizt að spila á óvinsældir ríkisstjórnarinnar, andúð almennings á kröfum á hendur Íslandi í Icesave-málinu og efasemdir fólks um aðild að Evrópusambandinu. Honum hefur meira að segja tekizt að telja stórum hluta stuðningsmanna Sjálfstæðis- og Framsóknarflokksins trú um að þeir eigi samleið með honum í hinni nýju forsetapólitík. Þeir eiga auðvitað eftir að komast að hinu gagnstæða, fari svo að þessir flokkar komist í ríkisstjórn. Ólafur hafði sigur í kosningabaráttunni, þar sem í upphafi leit út fyrir að hann gæti farið halloka. Þar bjó hann að langri reynslu í pólitískum orðaskylmingum og sýndi fimi sína í því að koma höggi á veika bletti andstæðinga sinna af hæfilegri ósvífni. Við þessu áttu mótframbjóðendur hans ekkert svar, enda hefur enginn þeirra neina reynslu af slíkri pólitískri vígfimi. Samt er það ekki svo að Ólafur Ragnar standi með pálmann í höndunum eftir forsetakosningarnar. Hann gengur býsna vígmóður af þessum orrustuvelli. Aldrei áður hefur sitjandi forseti fengið jafnfá atkvæði þegar hann hefur verið skoraður á hólm. Þótt nærri 53 prósenta fylgi sé afgerandi niðurstaða, er það engu að síður niðurlægjandi fyrir forseta sem hefur haft sextán ár til að ná til þjóðarinnar, að 47 prósent kjósenda skuli hafna honum og segja með því álit sitt á því hvernig hann hefur hagað störfum sínum í embætti. Þjóðin skiptist í nánast jafnar fylkingar með og á móti forsetanum. Niðurstaðan er þeim mun vandræðalegri fyrir hann vegna þess hvað reynslu- og erindisleysi mótframbjóðendanna var að mörgu leyti hróplegt. Þessi málalok undirstrika hvers konar forseti Ólafur Ragnar Grímsson er. Hann er ekki maður sem sameinar þjóðina á erfiðum tímum, heldur rær undir með öflum sundrungar. Hann blandar sér í hatrammar deilur um pólitískt viðkvæm mál, aðallega til að styrkja eigin stöðu. Einhver hefði haldið að nú vildi forsetinn reyna að ná til 47 prósentanna, sem ekki vildu hann, og fylkja þjóðinni að baki sér. Fátt bendir hins vegar til að Ólafur Ragnar Grímsson ætli að breyta um takt á síðasta kjörtímabili sínu (ef við megum þá treysta því að það sé hans síðasta, sem reynslan kennir okkur að við ættum ekki endilega að gera). Fyrirheit hans um öflugri þátttöku í opinberri umræðu á nýju kjörtímabili benda ekki til að forsetinn ætli að leita sátta og samstöðu. Hann verður áfram í pólitísku skylmingunum, sem honum þykja svo skemmtilegar, í stað þess að bera klæði á vopnin. Hvort það er þjóðinni fyrir beztu er allt önnur saga.