Herinn og hræsnin Ólafur Stephensen skrifar 16. júní 2011 09:02 Ekki var við öðru að búast en að fréttir af því að norski herinn leitaði að nýliðum á Íslandi leiddu af sér ný afbrigði hinnar furðulegu umræðu sem oftast fer af stað ef vopnaburð íslenzkra borgara ber á góma eða yfirleitt nokkur tengsl þeirra við hernaðarstarfsemi. Árni Þór Sigurðsson, þingmaður vinstri grænna og formaður utanríkismálanefndar Alþingis, var í fréttum Sjónvarpsins í fyrrakvöld afar hneykslaður á að Íslendingur í norska hernum hefði fengið að kynna möguleika á námi og herþjónustu í Noregi í þremur framhaldsskólum í Reykjavík. Árni sagði það „óviðeigandi“ og kallaði fólkið sem gengið hefur til liðs við norska herinn „fallbyssufóður“, sem væri „ginnt“ í herinn gegn því að fá ókeypis menntun. „Við erum vopnlaus og herlaus þjóð og ég tel að það sé eftirsóknarvert fyrir okkur,“ sagði Árni. Skúli Helgason, þingmaður Samfylkingarinnar og formaður menntamálanefndar, var sömuleiðis á því í fréttum RÚV í gær að kynningarnar í skólunum ættu ekki að viðgangast og væru komnar „út yfir það sem eðlilegt getur talizt“. Að baki þessum ummælum stjórmálamannanna liggur væntanlega það algenga sjónarmið að hernaðarstarfsemi sé vond og Íslendingar séu betri en aðrir af því að þeir hafa engan her. Ekki megi menga íslenzka æsku með því að segja henni frá því að hægt sé að fá starf við herþjónustu í öðrum löndum. Að minnsta kosti hjá sumum einkennist þetta sjónarmið þó af ákveðinni hræsni. Íslendingar eru ekki herlaus þjóð af því að við séum í eðli okkar eitthvað friðsamari eða betri en aðrar þjóðir. Þeir sem trúa slíku ættu kannski að kíkja aftur í Sturlungu eða frásagnir af Spánverjavígunum. Herleysi okkar er til komið vegna ýmissa sögulegra kringumstæðna. Landið var lengi undir erlendum yfirráðum, fjarlægðin frá öðrum ríkjum varði okkur lengi vel fyrir hugsanlegum innrásum og hér skorti einfaldlega fé og mannskap til að koma upp einhverjum trúverðugum vörnum. Um það leyti sem lýðveldið var stofnað var nútímahernaður kominn á það stig að fjarlægðin var engin vörn lengur. Hins vegar blasti við að fámenn þjóð í stóru landi á hernaðarlega mikilvægum stað átti enga möguleika á að verja það sjálf og eins gott var að sleppa hernaðarbröltinu. Við fólum öðrum varnir landsins og gerum það enn, með tvíhliða varnarsamningi við Bandaríkin og veru okkar í Atlantshafsbandalaginu. Vinstri græn trúa því að varnir séu óþarfar. Árni Þór Sigurðsson getur því verið sjálfum sér samkvæmur, þótt hann telji viðeigandi að tala niður til ungs fólks sem vill leggja fyrir sig starf sem í flestum löndum nýtur virðingar, meira að segja í öllum hinum norrænu, friðsömu velferðarríkjunum. Það er reyndar misskilningur hans ef hann heldur að herleysi Íslands sé ógnað með því að Íslendingar starfi í erlendum herjum, eins og mörg dæmi hafa verið um. Skúli Helgason tilheyrir hins vegar flokki sem er fylgjandi varnarsamstarfi og veru Íslands í NATO. Honum finnst sjálfsagt að ríkisborgarar nágrannalandanna komi Íslandi til varnar ef hætta steðjar að landinu, en finnst í hæsta máta óeðlilegt að ungum, lögráða Íslendingum sé sagt frá þeim möguleika að starfa við hlið þeirra. Í því felst hræsnin. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Ólafur Stephensen Mest lesið Halldór 27.03.2024 Halldór Yfirgangur, yfirlæti og endastöð Strætó Axel Hall Skoðun Hugsum fíknivanda upp á nýtt - Ný nálgun í meðhöndlun fíknivanda og áhættuhegðunar Svala Jóhannesdóttir,Lilja Sif Þorsteinsdóttir Skoðun Tímamót í sjálfsvígsforvörnum Ingibjörg Isaksen Skoðun Hættur heimsins virða engin landamæri Tótla I. Sæmundsdóttir Skoðun Við viljum tala íslensku, en hvernig Ólafur Guðsteinn Kristjánsson Skoðun Mansalsmál á Íslandi Kristján Þórður Snæbjarnarson Skoðun Umbúðir en ekkert innihald í Hafnarfirði Einar Geir Þorsteinsson Skoðun Það eru fleiri fiskar í sjónum og fleiri sjónarmið í hafstjórn Guðbjörg Ásta Ólafsdóttir Skoðun Sumt er bara ekki hægt að rökræða Ása Lind Finnbogadóttir Skoðun
Ekki var við öðru að búast en að fréttir af því að norski herinn leitaði að nýliðum á Íslandi leiddu af sér ný afbrigði hinnar furðulegu umræðu sem oftast fer af stað ef vopnaburð íslenzkra borgara ber á góma eða yfirleitt nokkur tengsl þeirra við hernaðarstarfsemi. Árni Þór Sigurðsson, þingmaður vinstri grænna og formaður utanríkismálanefndar Alþingis, var í fréttum Sjónvarpsins í fyrrakvöld afar hneykslaður á að Íslendingur í norska hernum hefði fengið að kynna möguleika á námi og herþjónustu í Noregi í þremur framhaldsskólum í Reykjavík. Árni sagði það „óviðeigandi“ og kallaði fólkið sem gengið hefur til liðs við norska herinn „fallbyssufóður“, sem væri „ginnt“ í herinn gegn því að fá ókeypis menntun. „Við erum vopnlaus og herlaus þjóð og ég tel að það sé eftirsóknarvert fyrir okkur,“ sagði Árni. Skúli Helgason, þingmaður Samfylkingarinnar og formaður menntamálanefndar, var sömuleiðis á því í fréttum RÚV í gær að kynningarnar í skólunum ættu ekki að viðgangast og væru komnar „út yfir það sem eðlilegt getur talizt“. Að baki þessum ummælum stjórmálamannanna liggur væntanlega það algenga sjónarmið að hernaðarstarfsemi sé vond og Íslendingar séu betri en aðrir af því að þeir hafa engan her. Ekki megi menga íslenzka æsku með því að segja henni frá því að hægt sé að fá starf við herþjónustu í öðrum löndum. Að minnsta kosti hjá sumum einkennist þetta sjónarmið þó af ákveðinni hræsni. Íslendingar eru ekki herlaus þjóð af því að við séum í eðli okkar eitthvað friðsamari eða betri en aðrar þjóðir. Þeir sem trúa slíku ættu kannski að kíkja aftur í Sturlungu eða frásagnir af Spánverjavígunum. Herleysi okkar er til komið vegna ýmissa sögulegra kringumstæðna. Landið var lengi undir erlendum yfirráðum, fjarlægðin frá öðrum ríkjum varði okkur lengi vel fyrir hugsanlegum innrásum og hér skorti einfaldlega fé og mannskap til að koma upp einhverjum trúverðugum vörnum. Um það leyti sem lýðveldið var stofnað var nútímahernaður kominn á það stig að fjarlægðin var engin vörn lengur. Hins vegar blasti við að fámenn þjóð í stóru landi á hernaðarlega mikilvægum stað átti enga möguleika á að verja það sjálf og eins gott var að sleppa hernaðarbröltinu. Við fólum öðrum varnir landsins og gerum það enn, með tvíhliða varnarsamningi við Bandaríkin og veru okkar í Atlantshafsbandalaginu. Vinstri græn trúa því að varnir séu óþarfar. Árni Þór Sigurðsson getur því verið sjálfum sér samkvæmur, þótt hann telji viðeigandi að tala niður til ungs fólks sem vill leggja fyrir sig starf sem í flestum löndum nýtur virðingar, meira að segja í öllum hinum norrænu, friðsömu velferðarríkjunum. Það er reyndar misskilningur hans ef hann heldur að herleysi Íslands sé ógnað með því að Íslendingar starfi í erlendum herjum, eins og mörg dæmi hafa verið um. Skúli Helgason tilheyrir hins vegar flokki sem er fylgjandi varnarsamstarfi og veru Íslands í NATO. Honum finnst sjálfsagt að ríkisborgarar nágrannalandanna komi Íslandi til varnar ef hætta steðjar að landinu, en finnst í hæsta máta óeðlilegt að ungum, lögráða Íslendingum sé sagt frá þeim möguleika að starfa við hlið þeirra. Í því felst hræsnin.
Hugsum fíknivanda upp á nýtt - Ný nálgun í meðhöndlun fíknivanda og áhættuhegðunar Svala Jóhannesdóttir,Lilja Sif Þorsteinsdóttir Skoðun
Hugsum fíknivanda upp á nýtt - Ný nálgun í meðhöndlun fíknivanda og áhættuhegðunar Svala Jóhannesdóttir,Lilja Sif Þorsteinsdóttir Skoðun