Skoðun

Verkalýðshreyfing og pólitík

Þegar Gylfi Arnbjörnsson framkvæmdastjóri Alþýðusambands Íslands lýsti á dögunum yfir stuðningi við formannsframboð Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur í Samfylkingunni varð af því nokkurt uppnám. Stuðningsmenn Össurar voru ósáttir og töldu að verið væri að misnota verkalýðshreyfinguna í þágu keppinautarins. Höfðu ýmsir skilið Gylfa þannig að Alþýðusambandið styddi framboð Ingibjargar Sólrúnar. Fram komu síðan aðrir áhrifamenn í verkalýðshreyfingunni og kváðust styðja Össur.

Utan Samfylkingarinnar stöldruðu menn við þessar flokkspólitísku yfirlýsingar frammámanna í verkalýðshreyfingunni. Upp úr því hefur sprottið umræða um tengsl verkalýðshreyfingar og stjórnmálaflokka. Hafa forystumenn nokkurra verkalýðsfélaga komið í fjölmiðla til að leggja áherslu á að kjarabaráttan eigi að vera fagleg og ekki megi blanda verkalýðsfélögunum, hvað þá heildarsamtökum þeirra, Alþýðusambandinu, inn í flokkspólitíska baráttu.

Í árdaga íslenskrar verkalýðshreyfingar var enginn greinarmunur gerður á stjórnmálabaráttu og kjarabaráttu. Alþýðuflokkurinn og Alþýðusambandið voru eitt og sama fyrirbærið og hélst sú skipan frá stofnun 1916 til 1940 þegar skorið var á tengslin vegna mikillar óánægju með þau. Blasir líka við hve afkáraleg sú skipan er að stéttarfélag sem semur um kaup og kjör í krafti skylduaðildar verkafólks sé jafnframt stjórnmálaflokkur sem kannski aðeins hluti félagsmanna styður.

Þrátt fyrir hinn formlega aðskilnað kjarabaráttu og stjórnmála var mjög rík hneigð innan verkalýðshreyfingarinnar að beita henni í þágu stjórnmálabaráttunnar. Árið 1956 mátti heita að Alþýðubandalagið, sem þá var kosningabandalag Sósíalistaflokksins og klofningsmanna úr Alþýðuflokknum, og Alþýðusambandið væru runnin saman í eina hreyfingu, en í þingkosningunum þetta ár lýsti ASÍ yfir stuðningi við kosningabandalagið. Í raun varð Alþýðusambandið ekki algerlega faglega sjálfstætt fyrr en liðið var á áttunda áratuginn.

Síðustu árin hafa verkalýðsforingjar ekkisýnt því áhuga að blanda saman stjórnmálabaráttunni og kjarabaráttunni. Þó hafa einkennileg tengsl alla tíð verið fyrir hendi á milli Alþýðusambandsins og norrænna jafnaðarmannaflokka.




Skoðun

Skoðun

Þúsundir kusu Sönnu

Anna Bentína Hermansen Einarsdóttir,Ármann Hákon Gunnarsson,Baldvin Björgvinsson,Brynja Guðnadóttir,Haraldur Ingi Haraldsson,Jón Hallur Haraldsson,Kolbrún Erna Pétursdóttir,Ólafur H. Ólafsson,Rakel Hildardóttir,Sigrún Jónsdóttir skrifar

Sjá meira


×