Bíó og sjónvarp

Leikið sjón­varps­efni aftur hluti af Eddunni

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Sigurvegarar á Edduverðlaununum árið 2025 þar sem ekki voru veitt verðlaun fyrir leikið sjónvarpsefni.
Sigurvegarar á Edduverðlaununum árið 2025 þar sem ekki voru veitt verðlaun fyrir leikið sjónvarpsefni. Hulda Margrét

Stjórn Íslensku kvikmynda- og sjónvarpsakademíunnar (ÍKSA) hefur opnað fyrir innsendingar til Eddunnar 2026 og ákveðið að verðlauna leikið sjónvarpsefni á ný. Þar bætist við fimm nýir flokkar: besta leikna sjónvarpsefnið auk besta leikara og leikkonu í aðal- og aukahlutverkum.

ÍKSA greinir frá þessu í tilkynningu til fjölmiðla þar sem opnað er fyrir innsendingar vegna Edduverðlaunanna 2026. Gjaldgeng eru verk sem frumsýnd voru opinberlega á tímabilinu 1. janúar til 31. desember 2025.

Innsendingarferlið er að fullu rafrænt á innsendingarvef Eddunnar en frestur til að senda inn verk rennur út á miðnætti þriðjudaginn 10. febrúar. Í kjölfarið hefja valnefndir Eddunnar störf.

ÍKSA ákvað að aðskilja afhendingu verðlauna fyrir sjónvarpsefni og kvikmyndir á Eddunni og árið 2024 voru  í fyrsta sinn eingöngu afhent verðlaun fyrir kvikmyndir. Af því tilefni stofnuðu ljósvakamiðlarnir Sýn, Rúv og Sjónvarp símans til Íslensku sjónvarpsverðlaunanna sem voru haldin í fyrsta sinn í október síðastliðnum. 

Nú virðist þó sem leikið sjónvarpsefni sé komið aftur til Eddunnar.

Verðlaunað verður í eftirtöldum flokkum:

  • Barna- og unglingamynd ársins
  • Erlend kvikmynd ársins
  • Heimildarmynd ársins
  • Heimildarstuttmynd ársins
  • Kvikmynd ársins
  • Stuttmynd ársins
  • Leikið sjónvarpsefni ársins
  • Brellur ársins
  • Búningar ársins
  • Gervi ársins
  • Handrit ársins
  • Hljóð ársins
  • Klipping ársins
  • Kvikmyndataka ársins
  • Leikari ársins í aðalhlutverki – kvikmynd
  • Leikari ársins í aukahlutverki – kvikmynd
  • Leikkona ársins í aðalhlutverki – kvikmynd
  • Leikkona ársins í aukahlutverki – kvikmynd
  • Leikmynd ársins
  • Leikstjóri ársins
  • Tónlist ársins
  • Leikari ársins í aðalhlutverki – sjónvarp
  • Leikari ársins í aukahlutverki – sjónvarp
  • Leikkona ársins í aðalhlutverki – sjónvarp
  • Leikkona ársins í aukahlutverki – sjónvarp
  • Heiðursverðlan
  • Uppgötvun ársins





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.