Fótbolti

Komst ekki í liðið hjá Val en skaut niður City: „Frá Lödubíl yfir í Lamborghini“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kasper Högh fagnar öðru marka sinna fyrir Bodö/Glimt í sigrinum óvænta á Manchester City.
Kasper Högh fagnar öðru marka sinna fyrir Bodö/Glimt í sigrinum óvænta á Manchester City. EPA/Mats Torbergsen

Kasper Högh hefur upplifað hæðir og lægðir á ferli sínum en hann var hetjan í fyrsta sigri Bodö/Glimt í Meistaradeildinni í vikunni.

Högh skoraði tvö fyrstu mörkin í afar óvæntum 3-1 sigri Bodö/Glimt á Manchester City.

Það vita kannski ekki allir að fyrir rúmum fimm árum var Högh leikmaður Vals í íslensku deildinni. Honum tókst þó ekki að komast í liðið hjá Hlíðarendaliðinu sem tryggði sér Íslandsmeistaratitilinn á Covid-árinu. 

Náði ekki að skora

Högh kom við sögu í fimm leikjum og átti bara þátt í einu marki. Hann skoraði ekkert mark en gaf eina stoðsendingu og komst aldrei í byrjunarliðið því Patrick Pedersen gaf það ekki svo auðveldlega eftir.

Hann yfirgaf Ísland eftir tímabilið og hefur síðan spilað í Danmörku og Noregi. Hann kom til Bodö/Glimt í ársbyrjun 2024.

Mörkin á móti City voru fyrstu tvö mörk Kaspers Høgh í Meistaradeildinni í vetur, eftir haust sem einkenndist af brenndum færum og vítaspyrnum.

Mætt með gott skap á hverja einustu æfingu

„Kasper hefur lagt mjög hart að sér, óháð því hvort mörkin hafi látið á sér standa, svo hann hefur mætt með gott skap á hverja einustu æfingu, lagt sig frábærlega fram og verið með í að draga hópinn í rétta átt,“ sagði liðsfélagi hans Patrick Berg við fjölmiðla eftir leikinn.

„Svo held ég að bæði hann og margir aðrir hafi haft gott af pásu núna um jólin og það er mjög ánægjulegt að sjá hann skora tvö mörk í dag,“ sagði Berg.

Høgh var keyptur frá Stabæk í janúar 2024. Með 29 deildarmörk fyrir Glimt hefur enginn skorað fleiri í Eliteserien frá komu Danans. Mörkin á þriðjudaginn voru hins vegar hans fyrstu tvö í Meistaradeildinni.

Markahæstur í Evrópudeildinni á síðasta tímabili

Hann sló í gegn í gulu treyjunni þegar hann varð markahæstur í Evrópudeildinni á síðasta tímabili. En í haust snerist vindurinn. Hann brenndi af vítaspyrnum gegn bæði Slavia Prag og Tottenham. Báðir leikirnir enduðu 2-2.

Sérfræðingur NRK, Carl-Erik Torp, sagði við Verdens Gang að hann væri óviss um gæði Høgh, sérstaklega þegar Bodø/Glimt mætir þeirri mótstöðu sem þeir gera í Meistaradeildinni.

Á þriðjudaginn var hann á Aspmyra og lýsti leiknum í útvarpi fyrir NRK Sport. Í beinni útsendingu sagði hann að Høgh hefði „farið úr því að vera Lada-bíll yfir í það að vera Lamborghini“.

„Þetta eru ótrúleg augnablik sem liðið skapar. Hann er á réttum stað og í þetta skiptið small það. Þetta 1-0 mark létti gríðarlega mörgum kílóum af herðum hans. Hann hefur verið að elta þetta fyrsta Meistaradeildarmark,“ sagði Carl-Erik Torp við NRK.

Torp var spurður út í orðalag sitt að segja að Högh hefði farið úr því að vera Lödubíll yfir í það að vera Lamborghini.

Hann hefur litið út eins og Lada

„Hann hefur litið út eins og Lada í Meistaradeildinni í ár. Hann hefur brennt af vítum og átt mörg tilgangslaus skot sem hann hefur þrumað af stað. Ég tel að Glimt hafi tapað stigum í þessari deildarkeppni með því að hafa ekki betri framherja,“ sagði Torp.

Að sögn Kjetil Knutsen, þjálfara Bodø/Glimt, er það engin tilviljun að Høgh blómstrar í fyrsta keppnisleik gulu treyjanna eftir áramót.

Fær aðeins meira frelsi

„Allir framherjar eiga tímabil þar sem allt gengur ekki eins og í sögu. Nú höfum við fengið að vinna svolítið með hann þannig að hann fær aðeins meira frelsi, svo hann geti spilað á sínum styrkleikum. Meira frelsi í teignum svo við fáum hann oftar með andlitið að marki andstæðinganna. Hann er fagmannlegasti fótboltamaður í heimi. Svo á hann góða liðsfélaga, það hjálpar líka,“ sagði Kjetil Knutsen.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×