Fótbolti

Kallar stjörnur Real Madrid „dekraða krakka“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Khabib Nurmagomedov var heimsmeistari i sinni íþrótt og veit hvað þarf til þess að vinna. Vinícius Júnior stóð í deilum við Xabi Alonso fyrir opnum tjöldum.
Khabib Nurmagomedov var heimsmeistari i sinni íþrótt og veit hvað þarf til þess að vinna. Vinícius Júnior stóð í deilum við Xabi Alonso fyrir opnum tjöldum. Getty/Mike Roach/Ricardo Nogueira

Bardagakappinn Khabib Nurmagomedov er líka mikill fótboltaáhugamaður og hann hefur blandað sér inn í umræðuna um óvænt endalok spænska þjálfarans Xabi Alonso hjá Real Madrid.

Nurmagomedov hefur lýst yfir stuðningi við Xabi Alonso og kallað leikmennina „dekraða krakka“ eftir brottför þjálfarans frá Real Madrid.

„Hollusta er ekki til. Fyrir einu ári grátbáðu þeir hann um að koma en núna ráku þeir hann út af dekruðum krökkum. Xabi, þú ert bestur,“ skrifaði Khabib.

Hann bætti einnig við og hélt áfram að lofa þjálfarann.

Einn af þeim þremur bestu

„Ég tel að Alonso sé einn af þremur bestu þjálfurum okkar tíma. Ef þetta lið nær ekki árangri með hann þá ættu þeir að skipta um leikmenn, ekki þjálfara. Ég er alveg viss um að það er enginn þjálfari sem getur stjórnað svona liði hjá Real Madrid. Við þurfum að losna við óstöðugu leikmennina,“ skrifaði Khabib.

„Hvort sem þú kemur í ræktina eða á völlinn, þá skiptir ekki máli hvort þeir eru bardagamenn eða ekki. Sem aðalþjálfari berð þú ábyrgð. En ef andrúmsloftið innan liðsins þíns leyfir ekki öllum að fylgja fyrirmælum þínum, þá ertu örugglega ekki á réttri leið,“ skrifaði Khabib.

Khabib Nurmagomedov veit vel hvað það er að vera sigurvegari. Hann er rússneskur fyrrverandi atvinnumaður í blönduðum bardagaíþróttum sem keppti í léttvigtarflokki hjá UFC. Hann var sá léttvigtarmeistari UFC sem hefur haldið heimsmeistaratitlinum lengst, eða frá apríl 2018 til mars 2021. Hann lagði hanskana á hilluna með 29 sigra og ekkert tap og er því ósigraður á ferlinum. Nurmagomedov er almennt talinn einn af bestu bardagaíþróttamönnum allra tíma og var tekinn inn í frægðarhöll UFC þann 30. júní 2022.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×