Körfubolti

Þriðji Kaninn mættur til bjargar ný­liðunum

Sindri Sverrisson skrifar
Brandon Averette var ekki lengi án vinnu, eftir að hafa yfirgefið Njarðvík.
Brandon Averette var ekki lengi án vinnu, eftir að hafa yfirgefið Njarðvík. Vísir/Anton

Nýliðar Ármanns eru í erfiðum málum á botni Bónus-deildar karla í körfubolta en hafa nú fengið til sín bandarískan leikmann sem kynnst hefur deildinni vel í vetur.

Ármenningar hafa nefnilega samið við hinn 28 ára gamla Brandon Averette um að spila með liðinu út leiktíðina.

Averette kemur til Ármanns eftir að Njarðvíkingar ákváðu á dögunum að segja upp samningi við hann.

Hann hefur skorað 17,8 stig að meðaltali í leik, í þrettán leikjum fyrir Njarðvík í vetur, og gefið 5,1 stoðsendingar og tekið 4,1 fráköst.

Heimilt er að hafa einn bandarískan leikmann í hverju liði og hóf Ármann tímabilið með Dibaji Walker í sínum röðum en hann fór svo til ÍA eftir fjóra leiki, og var reyndar einnig leystur undan samningi þar nú um áramótin.

Vonterius Woolbright kom svo til Ármanns í desember, tók þátt í báðum sigurleikjum liðsins og lék alls fimm leiki en skoraði að meðaltali aðeins 8 stig í leik, gaf 4 stoðsendingar og tók 5,4 fráköst. Hann er nú farinn frá félaginu.

Næsti leikur Ármanns er gegn Val í Laugardalshöllinni á fimmtudagskvöld. Nýliðarnir eru eins og fyrr segir með fjögur stig á botni Bónus-deildarinnar en aðeins tveimur stigum á eftir ÍA og fjórum á eftir Þór Þ. og Njarðvík.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×