Enski boltinn

Sjáðu lætin í lokin: „Þetta var al­gjör­lega til skammar“

Sindri Sverrisson skrifar
Menn hópuðust að Martinelli sem fékk að lokum gult spjald.
Menn hópuðust að Martinelli sem fékk að lokum gult spjald. Getty/John Walton

Það sauð aðeins upp úr í lokin á stórleik Arsenal og Liverpool í kvöld, þegar Gabriel Martinelli kom illa fram við meiddan Conor Bradley úti við hliðarlínu, kastaði í hann bolta og reyndi að ýta honum yfir línuna.

Leikurinn sjálfur var ekki eins fjörugur og vonir stóðu til og endaði með markalausu jafntefli.

Undir lokin hitnaði þó í kolunum eins og fyrr segir, en hér að neðan má sjá viðskipti þeirra Martinelli og Bradley sem var svo borinn á börum af velli og hafði greinilega meiðst.

Klippa: Martinelli með leiðindi við Bradley

Það var komið fram í uppbótartíma þegar Bradley meiddist og gæti Martinelli hafa haldið að um leikaraskap væri að ræða, því hann byrjaði á að kasta boltanum í Norður-Írann. Því næst reyndi hann að ýta honum yfir hliðarlínuna og út af vellinum, svo að engin töf yrði á því að leikurinn gæti haldið áfram.

Martinelli fékk gula spjaldið fyrir þetta og var látinn heyra það af liðsfélögum Bradley, áður en lokamínúturnar voru spilaðar.

Gary Neville, sérfræðingur Sky Sports, var vægast sagt ekki hrifinn af framgöngu Martinelli: „Ég er brjálaður yfir Martinelli. Í hreinskilni sagt þá skil ég ekki af hverju Liverpool-mennirnir fóru ekki bara og réðust á hann, og tóku á sig rautt spjald. Þetta var algjörlega til skammar.“

Mikel Arteta, stjóri Arsenal, kom sínum manni til varnar eftir leik og sagði alveg ljóst að hann vildi ekki neinum illt.


Tengdar fréttir

Arsenal með sex stiga forskot eftir blautan slag

Þrátt fyrir að sigurgöngu Arsenal hafi lokið í kvöld er liðið komið með sex stiga forskot á toppi ensku úrvalsdeildarinnar í fótbolta, eftir markalaust jafntefli í stórleiknum gegn Liverpool í Lundúnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×