Fótbolti

Messi vill frekar eignast fé­lag en þjálfa eftir ferilinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lionel Messi fagnar bandaríska meistaratitlinum á dögunum með Tadeo Allende, liðsfélaa sínum hjá Inter Miami.
Lionel Messi fagnar bandaríska meistaratitlinum á dögunum með Tadeo Allende, liðsfélaa sínum hjá Inter Miami. Getty/Carmen Mandato

Argentínska knattspyrnugoðsögnin Lionel Messi sér sig ekki fyrir sér sem þjálfara í framtíðinni og sagðist hrifnari af hugmyndinni um að eiga og þróa eigið félag eftir að leikmannsferlinum lýkur.

„Ég sé mig ekki fyrir mér sem þjálfara,“ sagði Messi í viðtali við argentínsku sjónvarpsstöðina Luzu TV.

Messi skrifaði nýlega undir framlengingu á samningi sínum við Inter Miami til loka MLS-tímabilsins 2028, sem heldur honum virkum á vellinum í nokkur ár til viðbótar.

Hins vegar hefur hann þegar fundið leiðir til að láta reyna á hugmyndina um eignarhald með því að ganga í samstarf við langan samherja sinn, Luis Suárez, um að stofna úrúgvæska fjórðungsdeildarliðið Deportivo LSM. Félagið, en upphafsstafirnir standa fyrir Luis Suárez og Messi, státar af áttatíu starfsmönnum og þrjú þúsund meðlimum.

„Deportivo LS er fjölskyldudraumur sem varð til árið 2018. Við höfum vaxið mikið og erum með yfir þrjú þúsund meðlimi,“ sagði Suárez. „Ég vil bjóða úrúgvæskum fótbolta, staðnum sem ég elska og þar sem ég ólst upp sem barn, tækifæri og verkfæri fyrir unglinga og börn til að vaxa,“ sagði Suárez.

Suárez hóf verkefnið upphaflega áður en hann bauð Messi að taka þátt.

„Ég er stoltur og ánægður með að þú valdir mig, svo ég vona að ég geti lagt allt af mörkum sem ég get til að halda áfram að vaxa og umfram allt, að vera þér við hlið í þessu,“ sagði Messi í tilkynningu.

Messi setti einnig nýlega á laggirnar Messi-bikarinn, unglingamót fyrir leikmenn yngri en sextán ára þar sem átta akademíulið víðs vegar að úr heiminum spiluðu í Miami, í von um að þróa hæfileika og samkeppni.

River Plate vann fyrstu útgáfu Messi-bikarsins í desember eftir sigur á Atlético Madrid í úrslitaleik. Í bili mun Messi halda áfram að einbeita sér að málum á vellinum sem leikmaður með ríkjandi MLS-bikarmeisturum Inter Miami sem hefja keppnistímabilið 2026 þann 21. febrúar á útivelli gegn Los Angeles.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×