Erlent

Sviss­neski skemmti­staðurinn ekki skoðaður í fimm ár

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Nicolas Feraud bæjarstjóri auk bæjarstjórnar Crans-Montana sat fyrir svörum vegna hins hörmulega eldsvoða.
Nicolas Feraud bæjarstjóri auk bæjarstjórnar Crans-Montana sat fyrir svörum vegna hins hörmulega eldsvoða. EPA/CYRIL ZINGARO

Svissneski skemmtistaðurinn sem varð alelda á nýársnótt með þeim afleiðingum að fjörutíu manns létust og fjöldi særðist alvarlega hafði ekki verið skoðaður af eftirlitsmönnum í fimm ár. Þetta er meðal þess sem fram kom á blaðamannafundi sem haldinn var vegna málsins en þar var tilkynnt að skemmtiblys verði bönnuð með öllu á næturklúbbum í Sviss.

Eins og fram hefur komið kviknaði eldurinn í hljóðeinangrandi plötum í lofti í kjallara skemmtistaðarins Le Constellation á Crans-Montana-skíðasvæðinu á gamlársnótt vegna skemmtiblysa sem borin voru fram með flöskum, líkt og margir tengja við svokölluð flöskuborð. Þá varð svokölluð yfirtendrun þegar starfsmenn reyndu að slökkva í eldinum með því að berja hann með viskastykkjum. 83 manns eru á sjúkrahúsi vegna brunasára og eru hinir slösuðu af tólf þjóðernum en alls slösuðust 116 manns.

Vildu gera hreint fyrir sínum dyrum

Á blaðamannafundinum sat Nicolas Feraud bæjarstjóri Crans-Montana og bæjarfulltrúar fyrir svörum vegna málsins. Lögregla rannsakar nú tildrög eldsins en Feraud sagði bæjaryfirvöld hafa viljað gera hreint fyrir sínum dyrum vegna málsins.

Á blaðamannafundinum kom meðal annars fram að byggingin sem skemmtistaðurinn var í var byggð árið 1977. Eigandi húsnæðisins hefði svo árið 2015 fengið að gera á því breytingar að utan og fengið til þess leyfi. 

Innandyra hafi húsið ekki verið skoðað, eða hvaða breytingar hafi verið gerðar á því. Hljóðeinangrandi plötur hafi einungis verið skoðaðar með tilliti til hljóðvistar þegar eigendur Le Constellation hafi sótt um að lengja opnunartímann.

Starfsmenn staðarins á leið með flöskur af áfengi til gesta. Hér sést þegar eldurinn var nýkviknaður.

Fram kom á fundinum að bæjaryfirvöldum beri að hafa eftirlit með skemmtistöðum og skoða eldvarnir þar einu sinni á ári. Tekið var fram á fundinum að það eftirlit hafi hins vegar ekki náð yfir hljóðeinangrandi efni í lofti. Þrátt fyrir þessar reglur hafi Le Constellation ekki verið skoðaður í fimm ár.

Dómara að meta ábyrgð

„Við sjáum eftir því, við skuldum fjölskyldunum það og við viðurkennum ábyrgð okkar,“ sagði bæjarstjórinn á blaðamannafundinum. Hann segir fimm manns starfa við eftirlit með eldvörnum á veitingastöðum og hótelum í bænum, þær byggingar séu yfir tíu þúsund. Bæjarstjórn hafi viljað hafa allt uppi á borðum í málinu og verður ráðist í heildarendurskoðun vegna málsins og hvers vegna skemmtistaðurinn var ekki skoðaður í fimm ár.

Þá sagði Feraud að hann myndi ekki segja af sér embætti vegna málsins. Kjörnir fulltrúar hafi verið kosnir af almenningi og þurfi að axla ábyrgð með því að halda áfram að vinna sína vinnu. Það væri dómara að ákveða hvort rannsaka skuli hvort bæjaryfirvöld séu mögulega sakhæf. Benti hann á að rekstraraðilum beri að þekkja reglugerðir, líkt og um fjölda leyfilegra gesta. Hann segir að bæjarstjórn hefði brugðist þá við þegar þeim hefði verið ljóst um stöðu eldvarna.

„Þessi vika hefur verið mjög erfið fyrir mig persónulega,“ sagði bæjarstjórinn. „Ég mun að eilífu minnast þeirrar nætur og sorgar allra þessara fjölskyldna.“


Tengdar fréttir

Sprenging eftir að gestir opnuðu út

Fjörutíu manns létu lífið í eldsvoða á skemmtistað í Sviss á nýársnótt. Talið er að eldurinn hafi kviknað út frá gosblysi. Talið er að svokölluð yfirtendrun skýri hversu hratt eldurinn breiddi úr sér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×