Lífið

Óútskýrð ráð­gáta í Havana endur­vakti fjand­skap Kúbu og Banda­ríkjanna

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Kúbverjar sýna samstöðu fyrir utan sendiráð Bandaríkjanna á Kúbu.
Kúbverjar sýna samstöðu fyrir utan sendiráð Bandaríkjanna á Kúbu. EPA/Yander Zamora

Seint á árinu 2016 fóru bandarískir útsendarar í Havana að tilkynna um óútskýrð veikindi sem síðar fengu heitið Havana-heilkennið. Einkennin voru meðal annars höfuðverkur, svimi, jafnvægisleysi, minnistruflanir og skynjun á undarlegum hljóðum eða þrýstingi í höfði.

Prófessorarnir Eiríkur Bergmann og Hulda Þórisdóttir fjalla um þessa sérkennilegu ráðgátu í nýjum þætti hlaðvarpsins Skuggavaldið, þar sem saga Havana-heilkennisins er rakin í sögulegu og pólitísku samhengi.

Viðkvæmur tími í samskiptum

Veikindin komu fram á viðkvæmum tíma í samskiptum Bandaríkjanna og Kúbu og áttu eftir að hafa víðtækar diplómatískar afleiðingar, þrátt fyrir að enn í dag hafi engin afgerandi skýring fundist. Hundruð bandarískra starfsmanna halda áfram að berjast við einkennin og telja sig svikna af eigin stjórnvöldum.

Í tíð Baracks Obama höfðu ríkin skömmu áður endurvakið stjórnmálasamband sitt eftir meira en hálfrar aldar fjandskap. Sendiráð höfðu verið opnuð á ný, ferðatakmörkunum létt og opnað fyrir aukin samskipti milli landanna. Í nóvember 2016 var hins vegar Donald Trump kjörinn forseti Bandaríkjanna og sama ár lést Fidel Castro, byltingarleiðtogi Kúbu.

Eiríkur Bergmann og Hulda Þórisdóttir eru umsjónarmenn Skuggavaldsins.Vísir/Vilhelm

Í fyrstu var litið á veikindin sem læknisfræðilegt vandamál, en þegar fleiri tilvik komu upp fóru bandarísk yfirvöld að greina ákveðið mynstur: einkennin virtust aðeins koma fram hjá bandarískum starfsmönnum og fjölskyldum þeirra, en ekki meðal kúbverskra ríkisborgara.

Þegar læknisfræðileg skýring lét á sér standa fóru menn að velta fyrir sér hvort um vísvitandi árásir gæti verið að ræða, jafnvel með einhvers konar ósýnilegri tækni og beindust spjótin þá að kúbverskum og jafnvel rússneskum stjórnvöldum. Engar sannanir fundust þó fyrir slíkum ásökunum.

Þrátt fyrir það var stór hluti starfsfólks bandaríska sendiráðsins í Havana kallaður heim og kúbverskum diplómötum vísað úr landi í Bandaríkjunum. Í kjölfarið harðnaði stefna Bandaríkjanna gagnvart Kúbu á ný, sérstaklega eftir að Donald Trump tók við embætti, og margt af því sem hafði verið opnað á Obama-tímanum var dregið til baka.

Tilkynningar í öðrum löndum 

Síðar bárust tilkynningar um svipuð veikindi frá bandarískum starfsmönnum í öðrum löndum.

Nýjustu skýrslur bandarískra yfirvalda telja ólíklegt að Havana-heilkennið stafi af leynilegum árásum erlends ríkis, og rannsóknir finna engin skýr merki um heilaáverka hjá flestum greindra. Þrátt fyrir það glíma hundruð bandarískra starfsmanna enn við einkenni og saka yfirvöld um að gera lítið úr reynslu þeirra til að forðast pólitískar afleiðingar eða þurfa viðurkenna vanmátt sinn gagnvart óvinveittu ríki.

Havana-heilkennið er því enn óleyst ráðgáta. Málið sýnir hvernig óvissa og skortur á skýringum getur haft pólitískar afleiðingar, sérstaklega þegar atburðir eiga sér stað í samhengi þar sem tortryggni og sögulegur fjandskapur eru þegar til staðar.

Fyrri þáttur af tveimur í Skuggavaldinu er nú aðgengilegur í hlaðvarpsveitum.


Tengdar fréttir

Úr inniskónum og yfir í hringiðu heimsmálanna

Breska saksóknaraembættið, þá undir stjórn Keir Starmer núverandi forsætisráðherra Bretlands, þrýsti á Svía að koma böndum yfir Julian Assange. Fjármálafyrirtæki heims tóku höndum saman um að skrúfa fyrir greiðslur til Wikileaks. Ögmundur Jónasson, þáverandi dómsmálaráðherra, sendi útsendara FBI hins vegar úr landi þegar þeir komu til Íslands til að yfirheyra fólk í tengslum við afhjúpanir Wikilekas.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.