Sport

Hádramatík í loka­um­ferð NFL og ljóst hvaða lið mætast

Sindri Sverrisson skrifar
Aaron Rodgers sendi Pittsburgh Steelers áfram í nótt í hádramatískum leik.
Aaron Rodgers sendi Pittsburgh Steelers áfram í nótt í hádramatískum leik. Getty/Michael Owens

Deildarkeppninni í NFL-deildinni í Bandaríkjunum hefði varla getað lokið með meiri dramatík en í nótt þegar úrslitin réðust á síðustu sekúndu lokaleiksins. Sentímetrar skildu á milli feigs og ófeigs.

Hinn 42 ára gamli Aaron Rodgers tryggði Pittsburgh Steelers sigur í AFC norðurdeildinni með sendingu sinni á Calvin Austin III þegar innan við mínúta var eftir af leiknum við Baltimore Ravens í nótt. Eða svo virtist alla vega vera því innan við mínúta var eftir.

Ravens fengu hins vegar tækifæri til að tryggja sér sigur með vallarmarki af 44 jarda færi, á síðustu sekúndu. Tyler Loop tók spyrnuna en setti boltann rétt framhjá. Frammistaða Lamar Jackson, sem skilað hafði þessu tækifæri og áður þremur snertimörkum í leiknum, varð því að engu fyrir Ravens sem töpuðu 26-24 og hafa lokið leik á þessu tímabili.

Þar með er ljóst hvernig dagskráin verður um næstu helgi þegar úrslitakeppnin hefst. Denver Broncos og Seattle Seahawks eru einu liðin sem tryggðu sig beint inn í 8-liða úrslitin og fá nú að bíða til 17.-18. janúar en í fyrstu umferð mætast:

  • Laugardagur 10. janúar:
  • Carolina Panthers – LA Rams
  • Chicago Bears – Green Bay Packers
  • Sunnudagur 11. janúar:
  • Jacksonville Jaguars – Buffalo Bills
  • Philadelphia Eagles – San Francisco 49ers
  • New England Patriots – LA Chargers
  • Mánudagur 12. janúar:
  • Pittsburgh Steelers – Houston Texans

Af úrslitunum í lokaumferðinni í gær má nefna að Carolina Panthers fengu efsta sætið í NFC suðurdeildinni, þar sem mikil spenna ríkti, eftir að Atlanta Falcons unnu 19-17 sigur gegn New Orleans Saints í gær.

Þetta var fjórði sigur Falcons í röð og hann gerði að verkum að Panthers, Falcons og Tampa Bay Buccaneers enduðu öll með sama sigurhlutfall (8 sigra, 9 töp) en Panthers voru með bestu innbyrðis niðurstöðuna.

Þá eru Jacksonville Jaguars áfram sjóðheitir og unnu stórsigur á Tennessee Titans, 41-7. Þeir unnuátta síðustu leiki sína og enduðu með þrettán sigra en fjögur töp á toppi AFC suðurdeildarinnar. Þeir enduðu aðeins einum sigri á eftir Broncos og New England Patriots, og mæta eins og fyrr segir San Francisco 49ers sem enduðu í 6. sæti NFC-deildarinnar.

NFL



Fleiri fréttir

Sjá meira


×