Sport

Luke „the Nuke“ Littler í úr­slita­leikinn þriðja árið í röð

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Luke Littler fagnar góðri kastþrennu í leiknum á móti Ryan Searle í kvöld.
Luke Littler fagnar góðri kastþrennu í leiknum á móti Ryan Searle í kvöld. Getty/Adam Davy/

Hinn átján ára gamli Luke Littler spilar til úrslita um heimsmeistaratitilinn í pílukasti þriðja árið í röð eftir sigur á Ryan Searle í undanúrslitaleik í Ally Pally í kvöld.

Littler vann leikinn 6-1 í settum en Searle hafði aðeins tapað tveimur settum allt mótið fyrir leik þeirra í kvöld.

Leikurinn byrjaði þó ekki vel fyrir hinn unga Littler því Searle vann fyrsta settið og komst í 1-0 en Littler svaraði tapi í fyrsta settinum með því að vinna næstu sex sett með sannfærandi hætti. Þar með var hann kominn í úrslitaleikinn.

Þetta er eins og áður sagði þriðji úrslitaleikur Littler á þremur árum en hann vann heimsmeistaratitilinn í fyrra eftir að hafa tapað í úrslitaleiknum árið á undan.

Þetta verður fjórtándi úrslitaleikur Littler á stóru sjónvarpsmóti og því er hann að ná fyrir nítján ára afmælið sem er 21. janúar næstkomandi.

Það kemur svo í ljós seinna í kvöld hver verður andstæðingur táningsins í úrslitaleiknum annað kvöld því í seinni undanúrslitaleiknum mætast Gian van Veen og Gary Anderson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×