Sport

Bíl­stjóri Anthony Joshua á­kærður vegna banaslyssins í Nígeríu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Anthony Joshua sést hér eftir sigur sinn á Jake Paul rétt fyrir jól.
Anthony Joshua sést hér eftir sigur sinn á Jake Paul rétt fyrir jól. Getty/ Ed Mulholland

Bílstjóri hnefaleikakappans Anthony Joshua hefur verið ákærður eftir umferðarslys í Nígeríu þar sem hnefaleikakappinn slasaðist og tveir úr teymi hans létust, að sögn lögreglu.

Adeniyi Mobolaji Kayode, 46 ára, var ákærður fyrir dómstóli í Sagamu á föstudag. Heimildarmenn lögreglu sögðu breska ríkisútvarpinu að ákærurnar fælu meðal annars í sér að hafa valdið dauða með hættulegum akstri.

Einkaþjálfari Joshua, Latif Ayodele, og styrktarþjálfari hans, Sina Ghami, létust á mánudag eftir að bifreiðin sem þeir ferðuðust í lenti á kyrrstæðum vörubíl á hraðbraut í Ogun-fylki, nálægt Lagos.

Fyrrverandi þungavigtarmeistarinn var fluttur á sjúkrahús með áverka eftir slysið og var útskrifaður á miðvikudag.

Að sögn Oluseyi Babaseyi, upplýsingafulltrúa lögreglunnar, var sakborningurinn ákærður í fjórum liðum.

Ákæruliðirnir fela í sér glæfraakstur sem olli dauða en aðrir liðir eru gáleysislegur og vanrækslulegur akstur, akstur án tilhlýðilegrar aðgæslu sem olli líkamstjóni og eignatjóni og akstur án gilds ökuskírteinis.

Dómstóllinn veitti sakborningnum lausn gegn fimm milljónum nígerískra næra í tryggingu með tveimur ábyrgðarmönnum. Hann var þó úrskurðaður í gæsluvarðhald þar til hann uppfyllti skilyrði lausnarinnar. Upphæðin er í kringum 440 þúsund í íslenskum krónum.

Málflutningi hefur verið frestað til 20. janúar næstkomandi.

Box



Fleiri fréttir

Sjá meira


×