Sport

Heims­meistarinn ekki hrifinn af HM yfir jóla­há­tíðina

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Magnus Carlsen tók við verðlaununum í bláum gallabuxum.
Magnus Carlsen tók við verðlaununum í bláum gallabuxum. Noushad Thekkayil/NurPhoto via Getty Images

Skákmaðurinn Magnus Carlsen vann tuttugustu gullverðlaunin á heimsmeistaramóti í gærkvöldi en getur ekki sagt að honum finnist mótið sjálft skemmtilegt. 

„Að vinna tvo heimsmeistaratitla er auðvitað frábært“ sagði Carlsen, sem vann tvöfalt í níunda sinn á ferlinum í gærkvöldi, þegar hann varð heimsmeistari í bæði at- og hraðskák.

„En þetta hefur ekki bara verið jákvætt. Mér finnst frekar leiðinlegt að geta ekki haldið jólin almennilega með fjölskyldunni.“

HM í Doha í Katar hófst að morgni 26. desember og lauk í gærkvöldi, 30. desember.

Carslen giftist Ellu Victoriu Carlsen (áður Malone) fyrr á árinu og saman eiga þau barn.

„Fjölskyldan veitir mér mikinn stuðning og ég hef upplifað erfiða daga í íþróttinni undanfarið. Ég er líka sá fyrsti til að viðurkenna að ég bregst ekki alltaf rétt við. Mér fannst, fyrir svona tveimur árum síðan, eins og ég væri orðinn betri í að höndla töp, en ég er ekkert orðinn mikið betri. Ég er mjög þakklátur fyrir þolinmæðina“ sagði heimsmeistarinn.

Hann stóð í stappi við mótstjórnendur á síðasta ári, þegar hann var sektaður fyrir að mæta í gallabuxum, en gallabuxur voru leyfðar á mótinu í ár.

Þrátt fyrir aukinn sveigjanleika í reglum um klæðaburð er Carslen óviss um hvort hann snúi aftur á heimsmeistaramótið á næsta ári.

„Öll pressan sem fylgir þessu móti og allt sem því fylgir. Ég veit það ekki, ég útiloka það alls ekki en ég mun þurfa að meta stöðuna á næsta ári.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×