Sport

Al­veg sama um úrvalsdeildina og ætlar í veiði eftir HM

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Fer Gary Anderson aftur alla leið í ár?
Fer Gary Anderson aftur alla leið í ár? vísir/Getty

Gary Anderson mun ekki taka þátt í úrvalsdeildinni í pílukasti jafnvel þó hann vinni heimsmeistaramótið í Alexandra Palace.

Fyrrum tvöfaldi heimsmeistarinn sýndi snilli sína í gærkvöldi þegar hann lagði Michael van Gerwen að velli í sextán manna úrslitum.

„Við mættumst síðast á þessu sviði, minnir mig, þegar hann vann mig í úrslitaleiknum og kom í veg fyrir þriðja heimsmeistaratitilinn. Nú er langt um liðið“ sagði Anderson og viðurkenndi að þeir tveir væru ekki lengur upp á sitt besta.

Hann hefur líka tvisvar orðið úrvalsdeildarmeistari, árin 2011 og 2015, en staðfesti í gær að hann myndi aldrei snúa þangað aftur.

„Nei, nei, nei. Ég er mjög ánægður eins og er, og þarf að einbeita mér að heimslistanum. Ef ég fer í úrvalsdeildina get ég ekki tekið þátt í Evrópumótaröðinni eða meistaramótaröðinni.“

Ef svo færi að Anderson yrði heimsmeistari myndi hann sjálfkrafa fá sæti í úrvalsdeildinni.

„Mér gæti ekki verið meira sama. Ég get ekki gert þetta aftur, þetta var frábært en ég get ekki verið sextán vikur í burtu“ sagði fjölskyldumaðurinn Anderson, sem er orðinn 55 ára gamall og ætlar að snúa strax aftur til veiðivatna með fjölskyldu sinni þegar HM klárast.

Skotinn fljúgandi mætir Justin Hood í átta manna úrslitum á morgun, nýársdag klukkan hálf eitt, í beinni útsendingu á Sýn Sport Viaplay.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×