Íslenski boltinn

„Mér var bara tjáð að þeir ætluðu að leita eitt­hvað annað“

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Damir Muminovic hefur kvatt Kópavoginn og byrjar æfingar í Grindavík eftir áramót.
Damir Muminovic hefur kvatt Kópavoginn og byrjar æfingar í Grindavík eftir áramót. vísir

Damir Muminovic sá öðruvísi endalok fyrir sér á ferlinum hjá Breiðabliki en skilur sáttur við félagið sem hann elskar af öllu sínu hjarta. Hann var líka snöggur að finna sér nýjan samastað. 

Damir er næst leikjahæsti leikmaður í sögu Breiðabliks og hefur tvisvar orðið Íslandsmeistari síðan hann gekk til liðs við félagið árið 2014. Hann sá fyrir sér að enda ferilinn klæddur í grænt en Breiðablik ákvað að endursemja ekki við miðvörðinn.

„Það var erfitt, þegar mér var tjáð að félagið vildi ekki hafa mig áfram, en núna eftir á er maður búinn að komast í gegnum það. Ég var þarna í einhver tólf ár og planið hjá mér er allavega að spila einhver ár í viðbót, markmiðið var að klára ferilinn í Breiðablik en við fórum ekki einu sinni í samningsviðræður. Mér var bara tjáð að þeir ætluðu að leita eitthvað annað og spurði engra fleiri spurninga um það, bara gott og blessað.“

Eftir að hafa jafnað sig af svekkelsinu gat hinn 35 ára gamli Damir sætt sig við þessa ákvörðun. Hann segist skilja við félagið í góðu og spilaði meira að segja tvo leiki með Breiðablik í Sambandsdeildinni eftir að hann var látinn fara.

„Þegar ég hugsa til baka hefði ég sennilega ekkert spilað þessa leiki sem voru eftir ef Ásgeir [Helgi Orrason] hefði verið heill. En það er gott að hafa fengið mínútur til að klára ferilinn almennilega, með félagi sem ég elska af öllu mínu hjarta.“

Nú liggur leiðin niður í Lengjudeildina, þar sem Damir er nýbúinn að skrifa undir tveggja ára samning við lið Grindavíkur. Vitað er að önnur lið sýndu honum áhuga en Damir var snöggur að ákveða sig. 

„Já, ég var fljótur að finna mér nýtt félag. Ég hitti þá einhvern laugardag, kom heim eftir fundinn og sagði bara við konuna mína að ég væri búinn að ákveða mig. Þeir vilja koma klúbbnum aftur á þann stað sem hann á að vera og ég hlakka ekkert eðlilega mikið til að taka þátt í því verkefni… Mér finnst ég eiga nokkur ár eftir inni, líkaminn er góður og ég stefni á að taka allavega einhver ár í viðbót.“

Viðtal við Damir var sýnt í Sportpakka Sýnar í gærkvöldi og má sjá í spilaranum að ofan. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×