Erlent

Þrír lög­reglu­þjónar og sex ISIS-liðar fallnir eftir á­tök í Tyrk­landi

Samúel Karl Ólason skrifar
Myndefni frá Tyrklandi bendir til þess að átökin hafi verið nokkuð umfangsmikil.
Myndefni frá Tyrklandi bendir til þess að átökin hafi verið nokkuð umfangsmikil.

Að minnsta kosti þrír lögregluþjónar og sex vígamenn Íslamska ríkisins liggja í valnum eftir bardaga þeirra á milli í Tyrklandi í morgun. Átta lögregluþjónar og öryggisvörður eru særðir eftir átökin, sem áttu sér stað í Elmali, suður af Istanbul. Lögregluþjónar eru sagðir hafa gert áhlaup á hús þar sem vígamennirnir héldu til.

Þar kom til átaka milli lögregluþjóna og vígamanna en AP fréttaveitan hefur eftir innanríkisráðherra Tyrklands að áhlaupið í Elmali hafi verið eitt af rúmlega hundrað sambærilegum aðgerðum gegn ISIS víðsvegar um Tyrkland.

Skotbardaginn er sagður hafa byrjað í nótt þegar lögregluþjónarnir réðust til atlögu klukkan tvö að staðartíma. Allir lögregluþjónarnir þrír sem féllu voru skotnir inn í húsinu. Svo virðist sem umsátur hafi þá byrjað en myndband sem hefur verið í dreifingu í morgun ku sýna lögregluþjóna í viðræðum við vígamenn um að gefast upp.

Allir vígamennirnir voru tyrkneskir. Auk þeirra segir ráðherrann að fimm konur og sex börn hafi verið í húsinu. Þau munu öll hafa lifað átökin af. Fimm eru sagðir hafa verið handteknir.

Íslamska ríkið hefur alltaf verið talið tiltölulega umsvifamikið í Tyrklandi. Vígamenn samtakanna hafa gert árásir þar í landi og skutu meðal annars 39 til bana á skemmtistað í Istanbúl á nýársdag 2017.

Þá er Tyrkland af sérfræðingum talið notað sem nokkurs konar miðstjórn fyrir anga samtakanna víðsvegar um heiminn.

Í síðustu viku gerðu yfirvöld í Tyrklandi sambærilega rassíu, þegar farið var í áhlaup víðsvegar um landið og voru 115 meintir ISIS-liðar handteknir. Þeir eru sagðir hafa komið að því að skipuleggja árásir sem áttu að beinast gegn hátíðahöldum um jólin og áramótin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×