Sport

Sam­þykkja hvern Rússann á fætur öðrum inn á Ólympíu­leikana

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Margir Rússar fá að keppa á Vetrarólympíuleikunum í febrúar á nýju ári en rússneski fáninn verður þó hvergi sjáanlegur.
Margir Rússar fá að keppa á Vetrarólympíuleikunum í febrúar á nýju ári en rússneski fáninn verður þó hvergi sjáanlegur. Getty/Ryan Pierse

Rússar mega ekki keppa undir rússneska fánanum en þeir komast í gegnum bakdyr inn á Vetrarólympíuleikana sem verða haldnir í Mílano og Cortina á Ítalíu í febrúar á nýju ári.

Fimm nýir rússneskir keppendur og þrír liðsstjórar að auki fengu samþykkta stöðu sem hlutlausir af Alþjóða skíða- og snjóbrettasambandinu í jólagjöf.

Þetta kemur fram í nýlegri uppfærslu á hinum nú mikið umtalaða FIS-lista en norska ríkisútvarpið fjallar um þetta.

Alls hafa nú 26 keppendur í hinum ýmsu FIS-greinum og tuttugu manns í stuðningsteymum fengið stöðu sem hlutlausir.

Fjórir af þeim fimm keppendum sem fengu grænt ljós á aðfangadag keppa í greinum innan frjálsra skíðagreina. Sá fimmti er alpagreinakeppandi. Liðsstjórarnir þrír tilheyra alpagreinum og skíðagöngu.

Bakgrunnurinn fyrir því starfi sem FIS hefur nú hafið er að Alþjóðlegi íþróttadómstóllinn (CAS) felldi fyrr í desember úr gildi ákvörðun stjórnar FIS um að banna rússneskum og hvítrússneskum keppendum að taka þátt í keppnum og forkeppnum Ólympíuleikanna.

CAS úrskurðaði að FIS yrði að leyfa þátttöku keppenda sem uppfylltu ströng hlutleysisviðmið Alþjóðaólympíunefndarinnar (IOC).

Í viðmiðunum segir meðal annars að viðkomandi keppendur megi ekki hafa nein sjálfviljug tengsl við rússneska eða hvítrússneska herinn – eða við neina aðra þjóðaröryggisstofnun.

Keppendur sem telja sig koma til greina til að fá stöðu sem hlutlausir hafa verið beðnir um að senda inn umsókn til yfirstjórnar FIS. Hver keppandi er síðan háður bakgrunnsskoðun sem framkvæmd er af þriðja aðila.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×