Golf

Koepka fyrsta stjarnan sem riftir samningi við LIV

Sindri Sverrisson skrifar
Brooks Koepka er hættur á LIV-mótaröðinni.
Brooks Koepka er hættur á LIV-mótaröðinni. Getty/Luke Walter

Bandaríski kylfingurinn Brooks Koepka, sem unnið hefur fimm risamót á ferlinum, hefur ákveðið að yfirgefa LIV-mótaröðina og er þar með fyrsta stjarnan sem kveður þessa umdeildu mótaröð. Ekki liggur fyrir hvort það þýði að hann snúi aftur á PGA-mótaröðina.

Koepka samdi um að spila á hinni sádiarabísku LIV-mótaröð árið 2022 og átti enn eftir eitt ár af samningi. Hann gaf það hins vegar út í dag að hann myndi ekki spila á mótaröðinni árið 2026 og segist í tilkynningu hafa fengið samþykki fyrir því.

Koepka segir að ákvörðunin sé tekin í góðu og að hann vilji geta varið meiri tíma heima með fjölskyldu sinni. Eiginkona hans, Jena, missti fóstur fyrr á þessu ári eins og hún greindi frá á Instagram.

Koepka, sem er 35 ára gamall, vann fjögur risamót á árunum 2017-19 og svo það fimmta árið 2023 eftir að hafa skipt yfir til LIV.

Hann átti hins vegar erfitt keppnistímabil í ár og komst ekki í gegnum niðurskurðinn á þremur af fjórum risamótanna auk þess sem hann landaði ekki sigri á neinu af LIV-mótunum. Raunar endaði hann aðeins tvívegis á meðal tíu efstu og samtals í 31. sæti af 54 kylfingum mótaraðarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×