Golf

Guð­rún Brá og Gunn­laugur Árni slógu best í ár

Sindri Sverrisson skrifar
Guðrún Brá Björgvinsdóttir og Gunnlaugur Árni Sveinsson áttu spennandi ár.
Guðrún Brá Björgvinsdóttir og Gunnlaugur Árni Sveinsson áttu spennandi ár. Golf.is

Guðrún Brá Björgvinsdóttir og Gunnlaugur Árni Sveinsson voru í dag útnefnd kylfingar ársins 2025, af Golfsambandi Íslands, eftir að hafa bæði átt viðburðaríkt og gott keppnisár.

Þetta er í þriðja sinn sem Guðrún Brá hlýtur viðurkenninguna, og annað árið í röð sem Gunnlaugur Árni er valinn.

Guðrún leikur fyrir Golfklúbbinn Keili og Gunnlaugur fyrir Golfklúbb Kópavogs og Garðabæjar en hann leikur jafnframt fyrir LSU Tigers hjá Louisiana University.

Hér að neðan má sjá rökstuðning GSÍ fyrir valinu á kylfingum ársins:

Guðrún Brá Björgvinsdóttir hóf árið með takmarkaðan þátttökurétt á Evrópumótaröðinni. Hún lék vel í Suður-Afríku í upphafi tímabilsins, sem skilaði henni auknum þátttökurétti og endaði hún á að leika í 10 mótum á mótaröðinni í ár. Guðrún varð í ágúst Íslandsmeistari í golfi í fjórða sinn eftir dramatískan sigur í umspili. Hún endaði svo árið á því að tryggja sér sterkan þátttökurétt á Evrópumótaröðinni með því að hafna í 24. sæti í lokaúrtökumóti mótaraðarinnar í Marokkó í desember.

Gunnlaugur Árni Sveinsson var þrívegis valinn í úrvalslið Evrópu/Alþjóðaliðs á árinu og hefur náð langbesta árangri íslensks kylfings á heimslistanum [innsk.: áhugakylfinga]. Hann lenti í 2. sæti á sterku háskólamóti um miðjan september og sigraði svo á firnasterku móti í október. Enginn íslenskur kylfingur hefur sigrað í jafn sterku áhugamannamóti frá upphafi. Frábær árangur Gunnlaugs Árna hefur komið honum upp í 8. sæti á heimslistanum. Gunnlaugur náði því afreki að verða besti kylfingur heims 19 ára og yngri samkvæmt heimslistanum. Hann er á öðru ári í liði LSU háskólans í Louisiana sem er einn allra sterkasti íþróttaskóli í Bandaríkjunum og er um þessar mundir í 2. sæti yfir besta árangur háskólagolfliða á þessu tímabili.

Þetta er í 28. skipti sem tveir einstaklingar eru valdir sem kylfingar ársins hjá GSÍ, kona og karl. Árið 1973 var fyrsta kjörið hjá GSÍ á kylfingi ársins en frá árinu 1998 hefur karl og kona verið valin sem kylfingar ársins.

Birgir Leifur Hafþórsson hefur oftast verið valinn kylfingur ársins í karlaflokki eða alls 11 sinnum. Ólafía Þórunn Kristinsdóttir er sú sem oftast hefur fengið þessa viðurkenningu í kvennaflokki eða alls sex sinnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×