Körfubolti

Breyttist úr hetju í skúrk: Rekinn út af fyrir að ögra LeBron

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
LeBron James og Dillon Brooks börðust hart í leik Pheonix Suns og Los Angeles Lakers.
LeBron James og Dillon Brooks börðust hart í leik Pheonix Suns og Los Angeles Lakers. getty/Mike Christy

Dillon Brooks hélt að hann væri hetja Phoenix Suns gegn Los Angeles Lakers í NBA-deildinni í nótt en endaði á því að verða skúrkur.

Þegar tólf sekúndur voru eftir af leiknum í Phoenix í nótt kom Brooks heimamönnum yfir, 114-113, með þriggja stiga körfu.

Það virtist eitthvað stíga honum til höfuðs því hann ögraði LeBron James eftir að hafa sett skotið niður. Hann fékk sína aðra tæknivillu og var vísað af velli.

LeBron klikkaði á vítinu en Lakers náði frákastinu og Devin Booker braut í kjölfarið á LeBron í þriggja stiga skoti.

Fyrsta vítið geigaði en næstu tvö rötuðu rétta leið og Lakers náði forystunni, 114-115. LeBron varði svo skot Graysons Allen og Marcus Smart skoraði síðasta stig leiksins á vítalínunni, 114-116.

LeBron, sem skoraði 26 stig í leiknum, sagðist ekki hafa sýnt leikræna tilburði þegar Brooks fór í hann eftir að hann kom Phoenix yfir.

„Þetta var klárlega tæknivilla,“ sagði LeBron sem fékk sjálfur tæknivillu í 3. leikhluta fyrir viðskipti sín við Brooks. Brooks fékk einnig fyrri tæknivilluna sína fyrir að hrinda LeBron.

Luka Doncic var stigahæstur hjá Lakers með 29 stig. Hann hitti aðeins úr sjö af 25 skotum sínum en skoraði þrettán stig úr vítum. LeBron nýtti átta af sautján skotum sínum utan af velli og níu af fjórtán vítum en tapaði boltanum átta sinnum.

Lakers hefur vegnað afar vel á útivelli á tímabilinu og unnið ellefu af fjórtán útileikjum sínum. Liðið er í 4. sæti Vesturdeildarinnar en Phoenix er í því sjöunda.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×