Fótbolti

Glódís fékk hvíld og leiðir liðið bráðum út á nýjan heimavöll

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Glódís Perla gat slakað vel á og horft á liðsfélaga sína vinna öruggan sigur. 
Glódís Perla gat slakað vel á og horft á liðsfélaga sína vinna öruggan sigur.  Vísir/Getty

Glódís Perla Viggósdóttir, fyrirliði íslenska landsliðsins og Bayern Munchen í þýsku úrvalsdeildinni, fékk góða hvíld í stórsigri liðsins í dag. Hún mun svo bráðum spila á nýjum heimavelli.

Topplið Bayern þurfti ekki á henni að halda í 6-0 sigri gegn fallbaráttuliðinu Hamburger SV. Glódís og tveir aðrir varnarmenn sem eru alla jafnan í byrjunarliðinu fengu að hvíla sig á bekknum í dag.

Með þessum sigri tók Bayern sex stiga forystu á Wolfsburg. Einn leikur er eftir þangað til deildin fer í jólafrí.

Bayern spilar sína heimaleiki í kvennaboltanum á æfingasvæði félagsins, á velli sem tekur um 2500 manns í sæti og hýsir einnig leiki ungmennaliðanna.

Félagið ætlar að bæta úr því bráðlega og hefur, samkvæmt Kicker, fest kaup á nýjum heimavelli.

Nýr heimavöllur kvennaliðs Bayern í Unterhaching.

Nýi völlurinn í Unterhaching hverfinu í Munchen tekur um 15000 manns í sæti og býður upp á mun betri aðstöðu en núverandi heimavöllur.

Formlega eigendaskipti verða þann 1. janúar næstkomandi en Bayern mun ekki flytja sig strax og ekki alveg að fullu. Liðið mun áfram leika einhverja leiki á gamla heimavellinum en nota nýja völlinn fyrir stórleiki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×