Fótbolti

Cecilía fagnaði stór­sigri gegn erki­fjendunum

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Cecilía Rán Rúnarsdóttir var sigruð í upphafi leiks en átti síðan þrjár góðar vörslur. 
Cecilía Rán Rúnarsdóttir var sigruð í upphafi leiks en átti síðan þrjár góðar vörslur.  Getty

Cecilía Rán Rúnarsdóttir stóð milli stanganna í 5-1 sigri Inter gegn AC í nágrannaslag Mílanó liðanna í 9. umferð ítölsku úrvalsdeildarinnar.

Inter lenti undir snemma en jafnaði leikinn skömmu síðar og þannig stóðu leikar þegar liðin gengu til búningsherbergja í hálfleik. Seinni hálfleikurinn var svo algjörlega í eigu Inter, sem setti þrjú mörk á fyrstu tuttugu mínútum seinni hálfleiks og innsiglaði svo 1-5 sigur undir lok leiks.

Tessa Wullaert átti stærstan þátt í sigrinum en hún lagði upp fjögur af fimm mörkum Inter.

Kayleigh van Dooren var konan sem sigraði Cecilíu í upphafi leiks en landsliðsmarkmaðurinn átti síðan þrjár góðar vörslur síðar í leiknum.

Sigurinn kemur Inter upp í fjórða sæti ítölsku deildarinnar, tveimur stigum frá Fiorentina og Juventus.

Karólína Lea Vilhjálmsdóttir sat allan leikinn á varamannabekknum, sem verður að teljast furðuleg ákvörðun ef ekki er um meiðsli að ræða því hún er alla jafnan í byrjunarliðinu og hafði lagt upp þrjú mörk í síðustu tveimur leikjum fyrir þennan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×