Bestu, stærstu, slökustu og verstu myndir ársins 2025 Samúel Karl Ólason skrifar 21. desember 2025 08:01 Það gekk ýmislegt á í kvikmyndaheiminum þetta árið. Árið 2025 virðist hafa farið hægt af stað, með tilliti til kvikmynda. Þó nokkrar kvikmyndir sem þykja hinar fínustu litu dagsins ljós á árinu en margar þeirra verða að teljast í smærri kantinum. Þegar kemur að tekjum í kvikmyndahúsum tróna barna- og framhaldsmyndir enn á toppnum. Eins og í fyrra eru endurgerðir eða framhaldsmyndir í nánast öllum efstu sætunum yfir tekjuhæstu myndirnar á vef Box Office Mojo. Það á ef til vill ekki fullkomlega við Minecraft, sem er í fjórða sæti, en hún byggir þrátt fyrir það á gífurlega vinsælum og mjög þekktum tölvuleik. F1: The Movie telst líklega sú mynd sem gæti flokkast sem „frumleg“ og er hún í áttunda sæti. Sinners er mögulega sú næsta og er hún í sextánda sæti. Svo virðist þó sem ákveðin grasrót sé að myndast, ef svo má segja, en á árinu komu út þó nokkrar „góðar“ myndir sem þykja þó í smærri kantinum. Það er að segja að þær kostuðu tiltölulega lítið en fengu fyrir vikið ekki endilega mikla dreifingu í kvikmyndahúsum. Hér að neðan verður stiklað á stóru yfir nokkrar helstu myndum ársins. Hvort sem þær voru bestar, stærstar, verstar eða misheppnaðar fjárhagslega. Bestu myndirnar hjá Tveimur á toppnum Þórarinn Þórarinsson, blaðamaður, kvikmyndagagnrýnandi og annar þáttastjórnanda hlaðvarpsins Tveir á toppnum, með Oddi Ævari Gunnarssyni, var fenginn til að taka saman sínar fimm bestu myndir ársins. Tóti hefur verið kvikmyndagagnrýnandi í rúma tvo áratugi. Tóti segir bíóárið 2025 ekki hafa farið sérstaklega vel af stað og fyrstu mánuði ársins hafa borið þess merki að Hollywood væri ekki í neitt sérstaklega góðu stuði. Fyrst hafi dregið til einhverra tíðinda í apríl, þegar Ryan Coogler tókst að smala fólki í bíó með Sinners, enda sé sú mynd víða á listum yfir bestu myndir ársins og þyki til alls líkleg þegar kemur að Óskarsverðlaununum. „Best að koma því strax frá að mér finnst Sinners stórlega ofmetin og sem vampírista til áratuga þótti ósköp lítið varið í þessa upphituðu From Dusk Till Dawn moðsuðu. Sinners kemst því ekki á blað hérna.“ Tóti segir einnig að þrátt fyrir brokkgenga byrjun hafi árið reynst býsna gott þegar upp er staðið. Það sé þótt meginstraumurinn frá Hollywood hafi litlu skilað. „Myndir frá Íran, Noregi og Brasilíu hafa víða og verðskuldað verið frekar til fjörsins sem aftur leiddi til þess að Bíó Paradís má teljast kvikmyndahús ársins á Íslandi. Þangað hafa þessar myndir helst ratað og tvær af þeim fimm sem hér eru nefndar voru eða eru í sýningum þar,“ segir Tóti. „Eins og alltaf þarf maður að setja fyrirvara við svona lista og þá helst um að einhverjar myndir hafi farið fram hjá manni eða, eins og til dæmis Pillion, ekki enn ratað í almennar sýningar á Íslandi.“ Hann segir sambærilega lista hjá fjölmiðlum víða um heim draga skýrt fram „hugmynd(fræðilegu) kreppuna“ vestanhafs. Margir líti eiginlega meira út eins og listar yfir tilnefndar myndir til óskarsins í flokki bestu „erlendu“ myndanna. „Í því sambandi er rétt að láta þess getið að ég er í hjarta mínu Hollywood-maður og eftir hæfilega harða innri baráttu tókst mér að halda stöðunni 3:2 fyrir Bandaríkjunum og meira að segja koma að einni Netflix-mynd.“ O Agente Secreto (The Secret Agent) „O Agente Secreto er framlag Brasilíu til Óskarsverðlaunanna, sem besta erlenda myndin, 2026. Hún er út um allt á listum yfir bestu myndir ársins og trónir oftar en ekki á toppnum enda svo frábær að henni verður vart með orðum lýst. Myndin gerist í Brasilíu 1977 í ömurleikanum á miðju tímabili herforingjastjórnarinnar sem ríkti frá 1964 til 1985 þegar mannréttindi voru fótum troðin af einurð og ógeðslegri festu. Þótt sagan hverfist um örlög eins manns, sem neyðist til að fara huldu höfði, teygir hún sig ótrúlega víða og dregur fram áhrif kúgunarvaldsins á líf fjölda persóna sem eru hver annarri áhugaverðari, litskrúðugri og betur leikin. Allt flæðir þetta fram af sprúðlandi frásagnargleði og hugmyndaauðgi með slettu af súrrealisma sem er svo vel hrærður saman við töfraraunsæi Suður-Ameríku að meira að segja fótur dauðans er jafn sjálfsagður og hann var í Fóstbræðrum, sælla minninga, þegar hann bregður sér af bæ.“ Affeksjonsverdi (Sentimental Value) „Þetta norska fjölskyldudrama er býsna ágengt, snertir alls konar hjartastrengi og hreyfir þannig við tilfinningum að myndin situr lengi í manni eftirá. Svona eins og allt gott bíó á að gera. Leikstjórinn Joachim Trier, sem sló í gegn með Verdens verste menneske fyrir nokkrum árum, gerir jafnvel enn betur með Affeksjonsverdi, eða Sentimental Value upp á enskuna, og mætir á þennan lista vel nestaður með Grand Prix-verðlaunin frá Cannes. Leikhópurinn er í toppformi og skilar persónum sínum alla leið. Stellan Skarsgård er frábær, eins og venjulega, en hefur þó líklega aldrei verið betri en í þessari mynd. Leiksigurinn sem hann vinnur er slíkur að almennt er talið að eitthvert öfugsnúið kraftaverk þurfti til þess að hann hljóti ekki Óskarinn sem besti leikarinn í aukahlutverki fyrir frammistöðuna. Og það sem meira er að hann þarf aðeins að fá tilnefningu til þess að brjóta blað í sögu verðlaunanna þar sem leikari í „erlendri“ mynd hefur aldrei verið tilnefndur sem besti aukaleikarinn. Renate Reinsve er síðan jafnvel enn betri í hlutverki dóttur persónu Stellans en myndin hverfist um tilfinningalegt uppgjör tveggja dætra hans við hann.“ One Battle After Another „Þetta tæplega þriggja klukkustunda furðuverk leikstjórans Paul Thomas Andersons er gersamlega geggjuð bíómynd. Fjöldi persónu kemur við sögu í hart keyrðri ádeilu á morkið bandarískt samfélag þar sem þung, gráglettin högg dynja linnulítið á alls konar fasista- og raisistaskríll. Og öllum hinum líka. Frammistaða úrvals leikara vegur hér þungt en hópurinn er svo þéttur að stórstjörnurnar Leonardo DiCaprio, Sean Penn og Benicio Del Toro mega hafa sig alla við þar sem tvær nýjar stjörnur, þær Teyana Taylor og Chase Infiniti, springa út með slíkum glæsibrag að lengi verður í minnum haft. Hér ægir saman alls konar stílbrögðum, geggjaðri kvikmyndatöku, tónlist og klippingum þannig að úr verður frábær þeysireið sem í ofanálag státar af svo mögnuðum bílaeltingarleik að leita þarf aftur til Bullitt og French Connection til þess að finna kvikmyndasögulegar hliðstæður.“ Weapons „Ég lýsti því nú yfir, í ágúst, í þætti númer 113 af Tveir á toppnum að Weapons væri ekki aðeins besta hryllingsmynd ársins heldur sennilega líka ein af bestu myndum ársins og nú í árslok get ég staðið keikur við þessa fullyrðingu. Weapons er algert æði og miklu meira en bara hryllingsmynd. Hún er vissulega ógeðslega á köflum, dásamlega þrúgandi og spennandi, en líka alveg drepfyndin, frumleg og ófyrirsjáanleg. Rétt eins og í öðrum myndum á þessum lista fer leikhópurinn með himinskautum. Julia Garner er hreint út sagt æðisleg og Josh Brolin klikkar ekki frekar en fyrri daginn en senunni og þar með myndinni stelur leikkonan Amy Madigan í hlutverki óhugnanlegasta illmennis síðari tíma hryllingsmyndasögu. Alveg ógeðslega ógeðsleg og ógleymanleg persóna.“ Train Dreams „Mögulega er ég að gera þessari Netflix-mynd leikstjórans Clint Bentley aðeins of hátt undir höfði. En það verður þá bara að hafa það. Train Dreams náði mér bara alveg á fyrstu mínútunum og hélt mér, tilfinningalega hristum og hrærðum, til enda. Mögulega kannski vegna þess að leikarinn Will Patton er hér í hlutverki sögumanns og rekur raunir erfiðisvinnuverkamannsins Robert Grainier með sinni ágengu en hljómþýðu röddu. Patton hefur lesið góðan slatta af verkum Stephens King inn á hljóðbækur þannig að ég fell í einhvern notalegan trans um leið og ég heyri hann tala. Bentley byggir myndina á samnefndri nóvellu eftir Denis Johnson sem horfir, með augum Grainiers, á bandarískt samfélag taka gríðarlegum breytingum á fyrri hluta síðustu aldar. Styrkur myndarinnar liggur fyrst og fremst í því að Grainier getur verið fulltrúi okkar allra og þess sammannlega sem er og verður vonandi alltaf það sama, óháð tíma og rúmi. Sjálfur er Grainier ekki maður margra orða en Joel Edgerton tekst meistaralega að tjá tilfinningar og þjáningar hans innri manns sem berst við að halda sönsum og lífi í hörðum og fjandsamlegum heimi. Felicity Jones er einnig stórgóð í hlutverki eiginkonu Grainiers og William H. Macy kemur með einhvern undarlegan galdur inn í söguna í litlu en mikilvægu aukahlutverki. Sumsé. Ósköp snotur, falleg mynd sem enginn verður verri af því að horfa á.“ Tekjuhæstu myndir ársins Yfirlit yfir nokkrar af tekjuhæstu myndum ársins má finna hér að neðan. Listinn byggir á upplýsingum frá Box Office Mojo. Teikni- og barnamyndir hrúgast oft efst á þessum lista og er árið í ár engin undantekning þar á. Slíkar myndir sitja í fjórum efstu sætunum yfir tekjuhæstu myndir ársins. Ne Zha 2 Kínverska teiknimyndin Ne Zha 2 er í fyrsta sæti og er óhætt að segja að yfirburðir hennar séu miklir. Hún byggir á kínverskri goðafræði og fjallar um djöfla-barnið Ne Zha sem er að reyna að koma vini sínum til bjargar. Í mars náði myndin þeim árangri að verða tekjuhæsta teiknimynd sögunnar. Nú í lok árs standa tekjurnar af myndinni í rúmum 1,9 milljörðum dala. Zootopia 2 Í öðru sæti og töluvert langt á eftir Ne Zha 2, kemur teiknimyndin Zootopia 2, framhald upprunalegu myndarinnar frá 2016, sem kemur einnig frá Disney. Kanínan Judy Hopps og refurinn Nick Wild, sem eru nú löggur, þurfa aftur að taka að sér gífurlega erfitt mál og flókið mál. Eins og gengur og gerist vindur það mál verulega upp á sig og upplifa vinirnir mikið ævintýri. Zootopia 2 hefur halað inn um 1,15 milljörðum dala. Lilo & Stitch Í þriðja sæti er myndin Lilo & Stitch en hún fjallar, eins og glögga lesendur grunar ef til vill, um Lilo & Stitch, stúlku og geimveru. Myndin er úr smiðju Disney og er endurgerð á vinsælli mynd frá 2002. Lilo & Stitch hefur halað inn rétt rúmum milljarði dala á árinu. A Minecraft Movie Minecraft hefur um árabil verið einn vinsælasti leikur heimsins. Myndin fjallar um hurðahúnasölumann sem hefur haft það betra, sem verður fyrir því óláni að sogast inn í Minecraft heiminn og vera handsamaður af vondu köllunum. Seinna meir lenda fjórir aðrir einstaklingar í sama heimi og þurfa þeir að taka höndum saman og bjarga heiminum. A Minecraft Movie hefur aflað um 960 milljónum dala á árinu og er því fjórða tekjuhæsta mynd ársins. Jurassic World: Rebirth Eina ekki-barnamyndin á topp fimm listanum yfir tekjuhæstu myndir ársins er Jurassic World: Rebirth. Það er guðeinnveithvaðasta myndin um risaeðlurnar á Isla Nublar og öðrum eyjum. Grín. Þetta er sjöunda Jurassic-myndin en fjórða Jurassic World-myndin. Þessi mynd gerist fimm árum eftir Jurassic World: Dominion og fjallar um hóp fólks sem heldur til risaeðlueyju í leit að lífsýnum sem eiga að umturna læknavísindunum. Ég veit að engan hefði grunað, en ferðin fer ekki alveg eftir áætlun. Jurassic World: Rebirth hefur halað inn um 870 milljónum dala. Helstu íslensku myndirnar Ástin sem eftir er Myndin Ástin sem eftir er fjallar um fjölskyldu þar sem foreldrarnir stefna hraðbyr í átt að skilnaði. Á fjórum árstíðum fylgjumst við með hversdagslífi fjölskyldumeðlima í gegnum óvænt, fyndin og hjartnæm augnablik sem endurspegla hið breytta samband þeirra. Sjá einnig: Kynferðisleg gremja, sænskur senuþjófur og náttúruklám Leikstjóri er Hlynur Pálmason. Með helstu hlutverk fara Saga Garðarsdóttir, Sverrir Guðnason, Ída Mekkín Hlynsdóttir, Þorgils Hlynsson, Grímur Hlynsson, Ingvar Sigurðsson og Anders Mossling. Eldarnir Eldarnir er kvikmynd sem byggir á samnefndri bók Sigríðar Hagalín og fjallar um einn helsta eldfjallafræðing Íslands. Hún heitir Anna og stendur frammi fyrir bæði eldgosi sem ógnar öryggi fólks og ástarsambandi sem gæti eyðilagt hjónaband hennar. Sjá einnig: Alvöru bíó en hægt brenna Eldarnir Leikstjóri er Ugla Hauksdóttir. Með helstu hlutverk fara Vigdís Hrefna Pálsdóttir, Pilou Asbæk og Jóhann G. Jóhannsson. Víkin Í Víkinni fara hjónin Björn og Áslaug vestur á Hornstrandir í sumarbústað þeirra. Síðar bankar bandarískur maður sem heitir Jack upp á og tekur hjónin í gíslingu. Hann telur að Björn sé faðir sinn. Sjá einnig: Vonlaust í víkinni Leikstjóri er Bragi Þór Hinriksson. Leikarar eru Örn Árnason, Margrét Ákadóttir, Leifur Sigurðarson og Ellert Ingimundarson. Guðaveigar Myndin Guðaveigar kom reyndar út í blálokinn á síðasta ári en fær samt að vera með hér. Hún fjallar um fjóra íslenska presta sem fara til Spánar í leit að nýju messuvíni fyrir þjóðkirkjuna. Prestarnir lenda í miklum hremmingum og komast í kast við lögin. Sjá einnig: Illa bruggaðar Guðaveigar Leikstjórar eru Örn Marinó Arnarson og Þorkell S. Harðarson. Með helstu hlutverk fara Hilmir Snær Guðnason, Vivian D. Ólafsdóttir, Halldór Gylfason, Þröstur Leó Gunnarsson og Sverrir Þór Sverrisson. The Damned Vestfirski hryllingurinn The Damned gerist á nítjándu öld og rekur raunir Evu, ekkju og erfingja afskekktar verbúðar. Þegar erlent seglskip strandar í firðinum, þarf hún að taka erfiða ákvörðun um hvort hún og sjómenn hennar eigi að koma skipbrotsmönnum til bjargar eða láta þá farast til þess að tryggja eigin afkomu. Sjá einnig: „Þetta er það erfiðasta sem ég hef gert“ Leikstjóri er Þórður Pálsson. Með helstu hlutverk fara Odessa Young, Joe Cole, Siobhan Finneran og Rory McCann. Stærstu „flopp“ ársins Þær eru margar kvikmyndirnar á ári hverju sem vekja alls ekki jafn mikla lukku og vonast var til. Hér að neðan má sjá nokkar helstu myndir ársins sem „floppuðu“ eins og það er kallað. Mjallhvít Eins og sést hér ofar var Lilo & Stitch ein tekjuhæsta mynd ársins. Leikin endurgerð af How To Train Your Dragon var í sjöunda sæti og bendir það til að fólk (börn) hafi enn áhuga á að sjá slíkar myndir. Það átti ekki við hana Mjallhvíti. Myndin, með Rachel Zegler í aðalhlutverki, var ein af dýrari myndum Disney og er framleiðsla hennar talin hafa kostað í heild meira en 250 milljónir dala. Myndin þótti þó ekki mjög góð. Þar að auki flæktist myndin inn í menningarátök vestanhafs og víðar og urðu deilurnar svo miklar að forsvarsmenn Disney ákváðu í aðdraganda frumsýningar að draga úr viðtölum og viðburðum henni tengdri. Að endingu halaði myndin eingöngu 205,7 milljónum dala. Mission: Impossible – The Final Reckoning Það er kannski erfitt að halda því fram að tíunda tekjuhæsta mynd ársins sé flopp en það ætla ég samt að gera. Myndin, sem var sú áttunda um ofurnjósnarann Ethan Hunt, og á að vera í síðasta sinn sem hann bjargar heiminum er talin ein af dýrustu myndum sögunnar en framleiðendur hafa varist fregna af raunverulegum kostnaði hennar. Variety segir þó að framleiðsla myndarinnar hafi verið um fjögur hundruð milljónir dala og kostnaður við markaðssteningu um hundrað milljónir. Það samsvarar, eins og glöggir lesendur eru ef til vill þegar búnir að átta sig á, um fimm hundruð milljónum dala. Heildartekjur myndarinnar voru tæpar sex hundruð milljónir dala. Tron: Ares Tron: Ares er þriðja myndin úr söguheimi Tron á 43 ára tímabili. Hún státar af þeim Jared Leto og Jeff Bridges í aðalhlutverkum og miklu sjónarspili. Fáir höfðu þó áhuga á því öllu saman. Fyrsta myndin kom út árið 1982 og hét hún einmitt Tron. Svo kom Tron: Legacy út árið 2010 og nú fimmtán árum seinna fengum við Tron: Ares. Það er áhugvert við þetta ferli allt saman að fyrsta myndin stóð sig ekki vel í kvikmyndahúsum. Legacy skilaði nokkrum hagnaði en þriðja myndin gerði það alls ekki. Margir hafa kennt Jared Leto um en hann er sagður hafa spilað stóra rullu í því að kvimyndin hafi yfir höfuð verið gerð. Deadline segir að framleiðsla myndarinnar hafi verið um 220 milljónir dala. Hún halaði ekki inn nema 142 milljónum. The Running Man Glen Powell skellti sér á árinu í gamla skó Arnolds Schwarzenegger í endurgerð á myndinni Running Man frá 1987. Í upprunalegu myndinni var Arnold í hlutverk ranglega dæmds manns sem fékk tækifæri til að fá frelsi með því að taka þátt í sjónvarpsþætti þar sem hann þurfti að berjast til dauða við fjölda manna. Nýja myndin fetar sambærilega slóð með nútímalegru ívafi, en verri klæðnaði. Edgar Wright leikstýrði myndinni og er hún sú dýrasta sem hann hefur gert en hún er sögð hafa kostað 110 milljónir dala. Hún aflaði þó ekki nema 37,7 milljónum dala. In the Lost Lands Paul W.S. Anderson tók sig nýverið til og gerði myndina In The Lost Lands, sem byggir á sögu eftir George RR Martin, höfund Game of Thrones. Dave Bautista er í einu aðalhlutverkinu og Milla Jovovich er auðvitað í hinu. Annað kemur ekki til greina þar sem Anderson gerði þessa mynd. Þessi mynd hafði í fljótu bragði allt. Það eru byssur, galdrar, vondir karlar og skrímsli. Áhugi áhorfenda var þó ekki til staðar og má það sama segja um gagnrýnendur sem tóku ekki vel í myndina. Framleiðsla In the lost lands er sögð hafa kostað að minnsta kosti 55 milljónir dala. Hún aflaði þó eingöngu 6,3 milljónum í kvikmyndahúsum. Það er sannkallað flopp. Verstu myndir ársins Margar myndir sem framleiddar voru á árinu voru einfaldlega hræðilegar. Hér er stiklað á stóru yfir nokkar þeirra. Þetta er ekki tæmandi listi og er ekki í neinni sérstakri röð. War of the Worlds Það var engin önnur mynd sem gat verið efst á þessum lista. War of the Worlds er ein af þessum myndum þar sem maður spyr sig, af fúlustu alvöru, hvort enginn hafi horft á hana áður en hún var gefin út. Um er að ræða nýjustu kvikmyndina sem byggir á bókmenntaverki H.G. Wells og hún er í stuttu máli sagt hræðilegt. Hef ég allavega lesið, ég hef ekki séð hana, eðlilega. War of the Worlds gerist að mestu á tölvuskjá aðalpersónunnar, sem leikin er af rapparanum Ice Cube, sem fylgist með innrás geimveranna á netinu. Það útskýrist að mestu leyti af því að myndin var tekin upp árið 2020, í miðjum faraldri Covid. Sjá einnig: Hvers vegna fær Innrásin frá Mars núll í einkunn? Sjálfur hefur Ice Cube talað um hver erfiðar tökurnar fyrir myndina voru. Hann hafi bara verið einn fyrir framan myndavél og að hún hafi verið tekin upp á einungis fimmtán dögum. Sjá einnig: Tjáir sig um erfiðar tökur „Við skutum hana á fimmtán dögum. Og þetta var í heimsfaraldrinum svo leikstjórinn var ekki þarna, enginn af leikurunum voru þarna. Þetta var eina leiðin til að taka upp myndina. Þetta var farsóttartímabil,“ sagði leikarinn. Myndin er með 4 prósent í einkunn hjá gagnrýnendum, samkvæmt Rotten Tomatoes. Almennir áhorfendur eru aðeins jákvæðari og gefa henni tuttugu prósent, væntanlega af kaldhæðni. Electric State Netflix fékk þau Millie Bobby Brown og Chris Pratt til að taka höndum saman í myndinni Electric State sem var leikstýrt af Russo-bræðrunum. Aðrir leikarar sem nefna má voru Anthony Mackie, Stanley Tucci, Brian Cox, Woody Harrelson og Giancarlo Esposito. Myndin er sögð hafa kostað 320 milljónir dala. Þarna var nóg af þekktum nöfnum, margir peningar og temmilega áhugaverð saga sem gæti leitt af sér sjónrænt ævintýri um heim þar sem vélmenni höfðu verið lokuð af á tilteknu svæði eftir misheppnaða uppreisn. Framleiðslan dróst þó á langinn, það þurfti að taka hluta myndarinnar upp aftur og það boðar aldrei gott. Að endingu féll myndin alls ekki í kramið hjá gagnrýnendum en samkvæmt Rotten Tomatoes fékk myndin fjórtán prósent hjá gagnrýnendum. Almennir áhorfendur voru þó nokkuð gjafmildari, enda margir vel upp aldir, og gáfu henni heil 67 prósent. Shadow Force Kvikmyndin Shadow Force er enn ein kvikmyndin sem gagnrýnendur nánast hata en almenningur segir fína. Myndin fjallar um hjón sem leikin eru af Kerry Washington og Omar Sy en þau tilheyrðu á árum áður alþjóðlegri sérsveit sem kallast Shadow Force. Nú eru þau eftirlýst og í felum frá fyrrverandi samstarfsfélögum sínum, sem finna þau auðvitað. Samkvæmt Rotten Tomatoes er Shadow Force með þrjátíu prósent hjá gagnrýnendum sem segja að myndin gæti ekki verið fyrirsjáanlegri og hefðbundnari, í stuttu máli sagt. Myndin féll ekki í kramið. Almennir áhorfendur segja myndina þó fína til síns brúks. Hún sé ágætis afþreying og gefa henni heilt 81 prósent. Playdate Kevin James hefur ekki látið mikið að sér kveða á undanförnum árum. Hans besta verk undanfarið er líklega grín sem hann byrjaði á í Covid, þegar hann fór að klippa sig í hlutverki hljóðmanns inn í frægar kvikmyndir. Það var gott stöff. Nýjasta myndin hans, Playdate, er ekki gott stöff. Hún er vont stöff. Í stuttu máli sagt fjallar hún um nýlega atvinnulausan mann sem reynir að tengjast stjúpsyni sínum en endar á því að lenda í miklu ævintýri með öðrum feðgum, þar sem faðirinn er leikinn af Alan Ritchson. Playdate fær 23 prósent hjá gagnrýnendum á Rotten Tomatoes og virðast þeir sammála um að myndin sé klisjukennd og hvorki fyndin né skemmtileg, sem verður að teljast slæmt fyrir meinta grínmynd. Enn og aftur eru almennir áhorfendur þó kurteisari og gefa myndinni 58 prósent. Alarum Alarum er ein af þessum fáu myndum þar sem gagnrýnendur og almennir áhorfendur eru sammála. Öllum sem séð hafa þessa mynd finnst hún hræðileg. Myndin fjallar um hjón sem leikin eru af þeim Scott Eastwood og Willu Fitzgerald. Þau eru bæði fyrrverandi njósnarar og eru hundtellt af vondum körlum sem tilheyra vondum samtökum sem kallast Alarum. Til að verjast þessum vondu köllum leita þau til annars fyrrverandi njósnara sem leikinn er af Sylvester Stallone. Þetta er allt saman hræðilegt alveg og það sést svo bersýnilega á stiklunni. Á vef Rotten Tomatoes státar myndin af hvorki né minna né meira en núll prósentum hjá gagnrýnendum. Almennir áhorfendur gefa myndinni fimmtán prósent. Bíó og sjónvarp Fréttir ársins 2025 Mest lesið Leitin á Svínafellsjökli sem hefur enn ekki skilað árangri Lífið Eru þetta ljótustu og fallegustu nýbyggingar ársins? Menning „Sat í átta klukkutíma á dag og horfði út um gluggann“ Menning Bestu, stærstu, slökustu og verstu myndir ársins 2025 Bíó og sjónvarp Bandalag listamanna lýsir yfir stuðningi við Dóru Menning Frægir fundu ástina 2025 Lífið „Ég heyrði þá kalla á mig en gat engu svarað“ Lífið „Það jafnar sig enginn eftir svona og við munum aldrei gera það“ Lífið Best klæddu Íslendingarnir 2025 Tíska og hönnun „Ef einhver telur að ég hljóti að vera sjúkur, þá verður að hafa það“ Menning Fleiri fréttir Bestu, stærstu, slökustu og verstu myndir ársins 2025 Framhald af Napóleonsskjölunum í vinnslu Enginn Óskar til Íslands 2026 Bestu myndir Robs Reiner Dick van Dyke á hundrað ára afmæli Pulp Fiction leikarinn Peter Greene látinn Frumsýning á Vísi: „Sýna fólki hver Bubbi er í raun og veru“ Nágrannar kveðja endanlega í dag Lawrence og Hutcherson snúa aftur í Hungurleikana Ósáttur við framhaldið: „Skildu ekki hvað gerði þá fyrstu sérstaka“ „Það er hægt að búa til alvöru hasarmyndir á Íslandi“ Yrsa, Hannes og Björg í eina sæng með Thule Sagði „frost í greininni“ og krafði Loga um breytingar Þrýstingur Trump dugði til að fá Rush Hour 4 í gegn Eru þetta bestu gamanmyndir sögunnar? Udo Kier er látinn Helga Margrét tekur við af Króla Framleiða keflvískan krimma sem gerist á hápunkti kalda stríðsins Æstur aðdáandi óð í Grande Hafnar ásökunum um dónamyndir og segir þveröfugt farið Sópa til sín verðlaunum um heim allan Íslenskur Taskmaster kemur í vor Hannes í víking með gamansama glæpamynd Snýr aftur í leiklistina eftir sjö ára fjarveru Urðað yfir nýja þætti Kim: Núll stjörnu glæpur gegn sjónvarpi Sjá meira
Eins og í fyrra eru endurgerðir eða framhaldsmyndir í nánast öllum efstu sætunum yfir tekjuhæstu myndirnar á vef Box Office Mojo. Það á ef til vill ekki fullkomlega við Minecraft, sem er í fjórða sæti, en hún byggir þrátt fyrir það á gífurlega vinsælum og mjög þekktum tölvuleik. F1: The Movie telst líklega sú mynd sem gæti flokkast sem „frumleg“ og er hún í áttunda sæti. Sinners er mögulega sú næsta og er hún í sextánda sæti. Svo virðist þó sem ákveðin grasrót sé að myndast, ef svo má segja, en á árinu komu út þó nokkrar „góðar“ myndir sem þykja þó í smærri kantinum. Það er að segja að þær kostuðu tiltölulega lítið en fengu fyrir vikið ekki endilega mikla dreifingu í kvikmyndahúsum. Hér að neðan verður stiklað á stóru yfir nokkrar helstu myndum ársins. Hvort sem þær voru bestar, stærstar, verstar eða misheppnaðar fjárhagslega. Bestu myndirnar hjá Tveimur á toppnum Þórarinn Þórarinsson, blaðamaður, kvikmyndagagnrýnandi og annar þáttastjórnanda hlaðvarpsins Tveir á toppnum, með Oddi Ævari Gunnarssyni, var fenginn til að taka saman sínar fimm bestu myndir ársins. Tóti hefur verið kvikmyndagagnrýnandi í rúma tvo áratugi. Tóti segir bíóárið 2025 ekki hafa farið sérstaklega vel af stað og fyrstu mánuði ársins hafa borið þess merki að Hollywood væri ekki í neitt sérstaklega góðu stuði. Fyrst hafi dregið til einhverra tíðinda í apríl, þegar Ryan Coogler tókst að smala fólki í bíó með Sinners, enda sé sú mynd víða á listum yfir bestu myndir ársins og þyki til alls líkleg þegar kemur að Óskarsverðlaununum. „Best að koma því strax frá að mér finnst Sinners stórlega ofmetin og sem vampírista til áratuga þótti ósköp lítið varið í þessa upphituðu From Dusk Till Dawn moðsuðu. Sinners kemst því ekki á blað hérna.“ Tóti segir einnig að þrátt fyrir brokkgenga byrjun hafi árið reynst býsna gott þegar upp er staðið. Það sé þótt meginstraumurinn frá Hollywood hafi litlu skilað. „Myndir frá Íran, Noregi og Brasilíu hafa víða og verðskuldað verið frekar til fjörsins sem aftur leiddi til þess að Bíó Paradís má teljast kvikmyndahús ársins á Íslandi. Þangað hafa þessar myndir helst ratað og tvær af þeim fimm sem hér eru nefndar voru eða eru í sýningum þar,“ segir Tóti. „Eins og alltaf þarf maður að setja fyrirvara við svona lista og þá helst um að einhverjar myndir hafi farið fram hjá manni eða, eins og til dæmis Pillion, ekki enn ratað í almennar sýningar á Íslandi.“ Hann segir sambærilega lista hjá fjölmiðlum víða um heim draga skýrt fram „hugmynd(fræðilegu) kreppuna“ vestanhafs. Margir líti eiginlega meira út eins og listar yfir tilnefndar myndir til óskarsins í flokki bestu „erlendu“ myndanna. „Í því sambandi er rétt að láta þess getið að ég er í hjarta mínu Hollywood-maður og eftir hæfilega harða innri baráttu tókst mér að halda stöðunni 3:2 fyrir Bandaríkjunum og meira að segja koma að einni Netflix-mynd.“ O Agente Secreto (The Secret Agent) „O Agente Secreto er framlag Brasilíu til Óskarsverðlaunanna, sem besta erlenda myndin, 2026. Hún er út um allt á listum yfir bestu myndir ársins og trónir oftar en ekki á toppnum enda svo frábær að henni verður vart með orðum lýst. Myndin gerist í Brasilíu 1977 í ömurleikanum á miðju tímabili herforingjastjórnarinnar sem ríkti frá 1964 til 1985 þegar mannréttindi voru fótum troðin af einurð og ógeðslegri festu. Þótt sagan hverfist um örlög eins manns, sem neyðist til að fara huldu höfði, teygir hún sig ótrúlega víða og dregur fram áhrif kúgunarvaldsins á líf fjölda persóna sem eru hver annarri áhugaverðari, litskrúðugri og betur leikin. Allt flæðir þetta fram af sprúðlandi frásagnargleði og hugmyndaauðgi með slettu af súrrealisma sem er svo vel hrærður saman við töfraraunsæi Suður-Ameríku að meira að segja fótur dauðans er jafn sjálfsagður og hann var í Fóstbræðrum, sælla minninga, þegar hann bregður sér af bæ.“ Affeksjonsverdi (Sentimental Value) „Þetta norska fjölskyldudrama er býsna ágengt, snertir alls konar hjartastrengi og hreyfir þannig við tilfinningum að myndin situr lengi í manni eftirá. Svona eins og allt gott bíó á að gera. Leikstjórinn Joachim Trier, sem sló í gegn með Verdens verste menneske fyrir nokkrum árum, gerir jafnvel enn betur með Affeksjonsverdi, eða Sentimental Value upp á enskuna, og mætir á þennan lista vel nestaður með Grand Prix-verðlaunin frá Cannes. Leikhópurinn er í toppformi og skilar persónum sínum alla leið. Stellan Skarsgård er frábær, eins og venjulega, en hefur þó líklega aldrei verið betri en í þessari mynd. Leiksigurinn sem hann vinnur er slíkur að almennt er talið að eitthvert öfugsnúið kraftaverk þurfti til þess að hann hljóti ekki Óskarinn sem besti leikarinn í aukahlutverki fyrir frammistöðuna. Og það sem meira er að hann þarf aðeins að fá tilnefningu til þess að brjóta blað í sögu verðlaunanna þar sem leikari í „erlendri“ mynd hefur aldrei verið tilnefndur sem besti aukaleikarinn. Renate Reinsve er síðan jafnvel enn betri í hlutverki dóttur persónu Stellans en myndin hverfist um tilfinningalegt uppgjör tveggja dætra hans við hann.“ One Battle After Another „Þetta tæplega þriggja klukkustunda furðuverk leikstjórans Paul Thomas Andersons er gersamlega geggjuð bíómynd. Fjöldi persónu kemur við sögu í hart keyrðri ádeilu á morkið bandarískt samfélag þar sem þung, gráglettin högg dynja linnulítið á alls konar fasista- og raisistaskríll. Og öllum hinum líka. Frammistaða úrvals leikara vegur hér þungt en hópurinn er svo þéttur að stórstjörnurnar Leonardo DiCaprio, Sean Penn og Benicio Del Toro mega hafa sig alla við þar sem tvær nýjar stjörnur, þær Teyana Taylor og Chase Infiniti, springa út með slíkum glæsibrag að lengi verður í minnum haft. Hér ægir saman alls konar stílbrögðum, geggjaðri kvikmyndatöku, tónlist og klippingum þannig að úr verður frábær þeysireið sem í ofanálag státar af svo mögnuðum bílaeltingarleik að leita þarf aftur til Bullitt og French Connection til þess að finna kvikmyndasögulegar hliðstæður.“ Weapons „Ég lýsti því nú yfir, í ágúst, í þætti númer 113 af Tveir á toppnum að Weapons væri ekki aðeins besta hryllingsmynd ársins heldur sennilega líka ein af bestu myndum ársins og nú í árslok get ég staðið keikur við þessa fullyrðingu. Weapons er algert æði og miklu meira en bara hryllingsmynd. Hún er vissulega ógeðslega á köflum, dásamlega þrúgandi og spennandi, en líka alveg drepfyndin, frumleg og ófyrirsjáanleg. Rétt eins og í öðrum myndum á þessum lista fer leikhópurinn með himinskautum. Julia Garner er hreint út sagt æðisleg og Josh Brolin klikkar ekki frekar en fyrri daginn en senunni og þar með myndinni stelur leikkonan Amy Madigan í hlutverki óhugnanlegasta illmennis síðari tíma hryllingsmyndasögu. Alveg ógeðslega ógeðsleg og ógleymanleg persóna.“ Train Dreams „Mögulega er ég að gera þessari Netflix-mynd leikstjórans Clint Bentley aðeins of hátt undir höfði. En það verður þá bara að hafa það. Train Dreams náði mér bara alveg á fyrstu mínútunum og hélt mér, tilfinningalega hristum og hrærðum, til enda. Mögulega kannski vegna þess að leikarinn Will Patton er hér í hlutverki sögumanns og rekur raunir erfiðisvinnuverkamannsins Robert Grainier með sinni ágengu en hljómþýðu röddu. Patton hefur lesið góðan slatta af verkum Stephens King inn á hljóðbækur þannig að ég fell í einhvern notalegan trans um leið og ég heyri hann tala. Bentley byggir myndina á samnefndri nóvellu eftir Denis Johnson sem horfir, með augum Grainiers, á bandarískt samfélag taka gríðarlegum breytingum á fyrri hluta síðustu aldar. Styrkur myndarinnar liggur fyrst og fremst í því að Grainier getur verið fulltrúi okkar allra og þess sammannlega sem er og verður vonandi alltaf það sama, óháð tíma og rúmi. Sjálfur er Grainier ekki maður margra orða en Joel Edgerton tekst meistaralega að tjá tilfinningar og þjáningar hans innri manns sem berst við að halda sönsum og lífi í hörðum og fjandsamlegum heimi. Felicity Jones er einnig stórgóð í hlutverki eiginkonu Grainiers og William H. Macy kemur með einhvern undarlegan galdur inn í söguna í litlu en mikilvægu aukahlutverki. Sumsé. Ósköp snotur, falleg mynd sem enginn verður verri af því að horfa á.“ Tekjuhæstu myndir ársins Yfirlit yfir nokkrar af tekjuhæstu myndum ársins má finna hér að neðan. Listinn byggir á upplýsingum frá Box Office Mojo. Teikni- og barnamyndir hrúgast oft efst á þessum lista og er árið í ár engin undantekning þar á. Slíkar myndir sitja í fjórum efstu sætunum yfir tekjuhæstu myndir ársins. Ne Zha 2 Kínverska teiknimyndin Ne Zha 2 er í fyrsta sæti og er óhætt að segja að yfirburðir hennar séu miklir. Hún byggir á kínverskri goðafræði og fjallar um djöfla-barnið Ne Zha sem er að reyna að koma vini sínum til bjargar. Í mars náði myndin þeim árangri að verða tekjuhæsta teiknimynd sögunnar. Nú í lok árs standa tekjurnar af myndinni í rúmum 1,9 milljörðum dala. Zootopia 2 Í öðru sæti og töluvert langt á eftir Ne Zha 2, kemur teiknimyndin Zootopia 2, framhald upprunalegu myndarinnar frá 2016, sem kemur einnig frá Disney. Kanínan Judy Hopps og refurinn Nick Wild, sem eru nú löggur, þurfa aftur að taka að sér gífurlega erfitt mál og flókið mál. Eins og gengur og gerist vindur það mál verulega upp á sig og upplifa vinirnir mikið ævintýri. Zootopia 2 hefur halað inn um 1,15 milljörðum dala. Lilo & Stitch Í þriðja sæti er myndin Lilo & Stitch en hún fjallar, eins og glögga lesendur grunar ef til vill, um Lilo & Stitch, stúlku og geimveru. Myndin er úr smiðju Disney og er endurgerð á vinsælli mynd frá 2002. Lilo & Stitch hefur halað inn rétt rúmum milljarði dala á árinu. A Minecraft Movie Minecraft hefur um árabil verið einn vinsælasti leikur heimsins. Myndin fjallar um hurðahúnasölumann sem hefur haft það betra, sem verður fyrir því óláni að sogast inn í Minecraft heiminn og vera handsamaður af vondu köllunum. Seinna meir lenda fjórir aðrir einstaklingar í sama heimi og þurfa þeir að taka höndum saman og bjarga heiminum. A Minecraft Movie hefur aflað um 960 milljónum dala á árinu og er því fjórða tekjuhæsta mynd ársins. Jurassic World: Rebirth Eina ekki-barnamyndin á topp fimm listanum yfir tekjuhæstu myndir ársins er Jurassic World: Rebirth. Það er guðeinnveithvaðasta myndin um risaeðlurnar á Isla Nublar og öðrum eyjum. Grín. Þetta er sjöunda Jurassic-myndin en fjórða Jurassic World-myndin. Þessi mynd gerist fimm árum eftir Jurassic World: Dominion og fjallar um hóp fólks sem heldur til risaeðlueyju í leit að lífsýnum sem eiga að umturna læknavísindunum. Ég veit að engan hefði grunað, en ferðin fer ekki alveg eftir áætlun. Jurassic World: Rebirth hefur halað inn um 870 milljónum dala. Helstu íslensku myndirnar Ástin sem eftir er Myndin Ástin sem eftir er fjallar um fjölskyldu þar sem foreldrarnir stefna hraðbyr í átt að skilnaði. Á fjórum árstíðum fylgjumst við með hversdagslífi fjölskyldumeðlima í gegnum óvænt, fyndin og hjartnæm augnablik sem endurspegla hið breytta samband þeirra. Sjá einnig: Kynferðisleg gremja, sænskur senuþjófur og náttúruklám Leikstjóri er Hlynur Pálmason. Með helstu hlutverk fara Saga Garðarsdóttir, Sverrir Guðnason, Ída Mekkín Hlynsdóttir, Þorgils Hlynsson, Grímur Hlynsson, Ingvar Sigurðsson og Anders Mossling. Eldarnir Eldarnir er kvikmynd sem byggir á samnefndri bók Sigríðar Hagalín og fjallar um einn helsta eldfjallafræðing Íslands. Hún heitir Anna og stendur frammi fyrir bæði eldgosi sem ógnar öryggi fólks og ástarsambandi sem gæti eyðilagt hjónaband hennar. Sjá einnig: Alvöru bíó en hægt brenna Eldarnir Leikstjóri er Ugla Hauksdóttir. Með helstu hlutverk fara Vigdís Hrefna Pálsdóttir, Pilou Asbæk og Jóhann G. Jóhannsson. Víkin Í Víkinni fara hjónin Björn og Áslaug vestur á Hornstrandir í sumarbústað þeirra. Síðar bankar bandarískur maður sem heitir Jack upp á og tekur hjónin í gíslingu. Hann telur að Björn sé faðir sinn. Sjá einnig: Vonlaust í víkinni Leikstjóri er Bragi Þór Hinriksson. Leikarar eru Örn Árnason, Margrét Ákadóttir, Leifur Sigurðarson og Ellert Ingimundarson. Guðaveigar Myndin Guðaveigar kom reyndar út í blálokinn á síðasta ári en fær samt að vera með hér. Hún fjallar um fjóra íslenska presta sem fara til Spánar í leit að nýju messuvíni fyrir þjóðkirkjuna. Prestarnir lenda í miklum hremmingum og komast í kast við lögin. Sjá einnig: Illa bruggaðar Guðaveigar Leikstjórar eru Örn Marinó Arnarson og Þorkell S. Harðarson. Með helstu hlutverk fara Hilmir Snær Guðnason, Vivian D. Ólafsdóttir, Halldór Gylfason, Þröstur Leó Gunnarsson og Sverrir Þór Sverrisson. The Damned Vestfirski hryllingurinn The Damned gerist á nítjándu öld og rekur raunir Evu, ekkju og erfingja afskekktar verbúðar. Þegar erlent seglskip strandar í firðinum, þarf hún að taka erfiða ákvörðun um hvort hún og sjómenn hennar eigi að koma skipbrotsmönnum til bjargar eða láta þá farast til þess að tryggja eigin afkomu. Sjá einnig: „Þetta er það erfiðasta sem ég hef gert“ Leikstjóri er Þórður Pálsson. Með helstu hlutverk fara Odessa Young, Joe Cole, Siobhan Finneran og Rory McCann. Stærstu „flopp“ ársins Þær eru margar kvikmyndirnar á ári hverju sem vekja alls ekki jafn mikla lukku og vonast var til. Hér að neðan má sjá nokkar helstu myndir ársins sem „floppuðu“ eins og það er kallað. Mjallhvít Eins og sést hér ofar var Lilo & Stitch ein tekjuhæsta mynd ársins. Leikin endurgerð af How To Train Your Dragon var í sjöunda sæti og bendir það til að fólk (börn) hafi enn áhuga á að sjá slíkar myndir. Það átti ekki við hana Mjallhvíti. Myndin, með Rachel Zegler í aðalhlutverki, var ein af dýrari myndum Disney og er framleiðsla hennar talin hafa kostað í heild meira en 250 milljónir dala. Myndin þótti þó ekki mjög góð. Þar að auki flæktist myndin inn í menningarátök vestanhafs og víðar og urðu deilurnar svo miklar að forsvarsmenn Disney ákváðu í aðdraganda frumsýningar að draga úr viðtölum og viðburðum henni tengdri. Að endingu halaði myndin eingöngu 205,7 milljónum dala. Mission: Impossible – The Final Reckoning Það er kannski erfitt að halda því fram að tíunda tekjuhæsta mynd ársins sé flopp en það ætla ég samt að gera. Myndin, sem var sú áttunda um ofurnjósnarann Ethan Hunt, og á að vera í síðasta sinn sem hann bjargar heiminum er talin ein af dýrustu myndum sögunnar en framleiðendur hafa varist fregna af raunverulegum kostnaði hennar. Variety segir þó að framleiðsla myndarinnar hafi verið um fjögur hundruð milljónir dala og kostnaður við markaðssteningu um hundrað milljónir. Það samsvarar, eins og glöggir lesendur eru ef til vill þegar búnir að átta sig á, um fimm hundruð milljónum dala. Heildartekjur myndarinnar voru tæpar sex hundruð milljónir dala. Tron: Ares Tron: Ares er þriðja myndin úr söguheimi Tron á 43 ára tímabili. Hún státar af þeim Jared Leto og Jeff Bridges í aðalhlutverkum og miklu sjónarspili. Fáir höfðu þó áhuga á því öllu saman. Fyrsta myndin kom út árið 1982 og hét hún einmitt Tron. Svo kom Tron: Legacy út árið 2010 og nú fimmtán árum seinna fengum við Tron: Ares. Það er áhugvert við þetta ferli allt saman að fyrsta myndin stóð sig ekki vel í kvikmyndahúsum. Legacy skilaði nokkrum hagnaði en þriðja myndin gerði það alls ekki. Margir hafa kennt Jared Leto um en hann er sagður hafa spilað stóra rullu í því að kvimyndin hafi yfir höfuð verið gerð. Deadline segir að framleiðsla myndarinnar hafi verið um 220 milljónir dala. Hún halaði ekki inn nema 142 milljónum. The Running Man Glen Powell skellti sér á árinu í gamla skó Arnolds Schwarzenegger í endurgerð á myndinni Running Man frá 1987. Í upprunalegu myndinni var Arnold í hlutverk ranglega dæmds manns sem fékk tækifæri til að fá frelsi með því að taka þátt í sjónvarpsþætti þar sem hann þurfti að berjast til dauða við fjölda manna. Nýja myndin fetar sambærilega slóð með nútímalegru ívafi, en verri klæðnaði. Edgar Wright leikstýrði myndinni og er hún sú dýrasta sem hann hefur gert en hún er sögð hafa kostað 110 milljónir dala. Hún aflaði þó ekki nema 37,7 milljónum dala. In the Lost Lands Paul W.S. Anderson tók sig nýverið til og gerði myndina In The Lost Lands, sem byggir á sögu eftir George RR Martin, höfund Game of Thrones. Dave Bautista er í einu aðalhlutverkinu og Milla Jovovich er auðvitað í hinu. Annað kemur ekki til greina þar sem Anderson gerði þessa mynd. Þessi mynd hafði í fljótu bragði allt. Það eru byssur, galdrar, vondir karlar og skrímsli. Áhugi áhorfenda var þó ekki til staðar og má það sama segja um gagnrýnendur sem tóku ekki vel í myndina. Framleiðsla In the lost lands er sögð hafa kostað að minnsta kosti 55 milljónir dala. Hún aflaði þó eingöngu 6,3 milljónum í kvikmyndahúsum. Það er sannkallað flopp. Verstu myndir ársins Margar myndir sem framleiddar voru á árinu voru einfaldlega hræðilegar. Hér er stiklað á stóru yfir nokkar þeirra. Þetta er ekki tæmandi listi og er ekki í neinni sérstakri röð. War of the Worlds Það var engin önnur mynd sem gat verið efst á þessum lista. War of the Worlds er ein af þessum myndum þar sem maður spyr sig, af fúlustu alvöru, hvort enginn hafi horft á hana áður en hún var gefin út. Um er að ræða nýjustu kvikmyndina sem byggir á bókmenntaverki H.G. Wells og hún er í stuttu máli sagt hræðilegt. Hef ég allavega lesið, ég hef ekki séð hana, eðlilega. War of the Worlds gerist að mestu á tölvuskjá aðalpersónunnar, sem leikin er af rapparanum Ice Cube, sem fylgist með innrás geimveranna á netinu. Það útskýrist að mestu leyti af því að myndin var tekin upp árið 2020, í miðjum faraldri Covid. Sjá einnig: Hvers vegna fær Innrásin frá Mars núll í einkunn? Sjálfur hefur Ice Cube talað um hver erfiðar tökurnar fyrir myndina voru. Hann hafi bara verið einn fyrir framan myndavél og að hún hafi verið tekin upp á einungis fimmtán dögum. Sjá einnig: Tjáir sig um erfiðar tökur „Við skutum hana á fimmtán dögum. Og þetta var í heimsfaraldrinum svo leikstjórinn var ekki þarna, enginn af leikurunum voru þarna. Þetta var eina leiðin til að taka upp myndina. Þetta var farsóttartímabil,“ sagði leikarinn. Myndin er með 4 prósent í einkunn hjá gagnrýnendum, samkvæmt Rotten Tomatoes. Almennir áhorfendur eru aðeins jákvæðari og gefa henni tuttugu prósent, væntanlega af kaldhæðni. Electric State Netflix fékk þau Millie Bobby Brown og Chris Pratt til að taka höndum saman í myndinni Electric State sem var leikstýrt af Russo-bræðrunum. Aðrir leikarar sem nefna má voru Anthony Mackie, Stanley Tucci, Brian Cox, Woody Harrelson og Giancarlo Esposito. Myndin er sögð hafa kostað 320 milljónir dala. Þarna var nóg af þekktum nöfnum, margir peningar og temmilega áhugaverð saga sem gæti leitt af sér sjónrænt ævintýri um heim þar sem vélmenni höfðu verið lokuð af á tilteknu svæði eftir misheppnaða uppreisn. Framleiðslan dróst þó á langinn, það þurfti að taka hluta myndarinnar upp aftur og það boðar aldrei gott. Að endingu féll myndin alls ekki í kramið hjá gagnrýnendum en samkvæmt Rotten Tomatoes fékk myndin fjórtán prósent hjá gagnrýnendum. Almennir áhorfendur voru þó nokkuð gjafmildari, enda margir vel upp aldir, og gáfu henni heil 67 prósent. Shadow Force Kvikmyndin Shadow Force er enn ein kvikmyndin sem gagnrýnendur nánast hata en almenningur segir fína. Myndin fjallar um hjón sem leikin eru af Kerry Washington og Omar Sy en þau tilheyrðu á árum áður alþjóðlegri sérsveit sem kallast Shadow Force. Nú eru þau eftirlýst og í felum frá fyrrverandi samstarfsfélögum sínum, sem finna þau auðvitað. Samkvæmt Rotten Tomatoes er Shadow Force með þrjátíu prósent hjá gagnrýnendum sem segja að myndin gæti ekki verið fyrirsjáanlegri og hefðbundnari, í stuttu máli sagt. Myndin féll ekki í kramið. Almennir áhorfendur segja myndina þó fína til síns brúks. Hún sé ágætis afþreying og gefa henni heilt 81 prósent. Playdate Kevin James hefur ekki látið mikið að sér kveða á undanförnum árum. Hans besta verk undanfarið er líklega grín sem hann byrjaði á í Covid, þegar hann fór að klippa sig í hlutverki hljóðmanns inn í frægar kvikmyndir. Það var gott stöff. Nýjasta myndin hans, Playdate, er ekki gott stöff. Hún er vont stöff. Í stuttu máli sagt fjallar hún um nýlega atvinnulausan mann sem reynir að tengjast stjúpsyni sínum en endar á því að lenda í miklu ævintýri með öðrum feðgum, þar sem faðirinn er leikinn af Alan Ritchson. Playdate fær 23 prósent hjá gagnrýnendum á Rotten Tomatoes og virðast þeir sammála um að myndin sé klisjukennd og hvorki fyndin né skemmtileg, sem verður að teljast slæmt fyrir meinta grínmynd. Enn og aftur eru almennir áhorfendur þó kurteisari og gefa myndinni 58 prósent. Alarum Alarum er ein af þessum fáu myndum þar sem gagnrýnendur og almennir áhorfendur eru sammála. Öllum sem séð hafa þessa mynd finnst hún hræðileg. Myndin fjallar um hjón sem leikin eru af þeim Scott Eastwood og Willu Fitzgerald. Þau eru bæði fyrrverandi njósnarar og eru hundtellt af vondum körlum sem tilheyra vondum samtökum sem kallast Alarum. Til að verjast þessum vondu köllum leita þau til annars fyrrverandi njósnara sem leikinn er af Sylvester Stallone. Þetta er allt saman hræðilegt alveg og það sést svo bersýnilega á stiklunni. Á vef Rotten Tomatoes státar myndin af hvorki né minna né meira en núll prósentum hjá gagnrýnendum. Almennir áhorfendur gefa myndinni fimmtán prósent.
Bíó og sjónvarp Fréttir ársins 2025 Mest lesið Leitin á Svínafellsjökli sem hefur enn ekki skilað árangri Lífið Eru þetta ljótustu og fallegustu nýbyggingar ársins? Menning „Sat í átta klukkutíma á dag og horfði út um gluggann“ Menning Bestu, stærstu, slökustu og verstu myndir ársins 2025 Bíó og sjónvarp Bandalag listamanna lýsir yfir stuðningi við Dóru Menning Frægir fundu ástina 2025 Lífið „Ég heyrði þá kalla á mig en gat engu svarað“ Lífið „Það jafnar sig enginn eftir svona og við munum aldrei gera það“ Lífið Best klæddu Íslendingarnir 2025 Tíska og hönnun „Ef einhver telur að ég hljóti að vera sjúkur, þá verður að hafa það“ Menning Fleiri fréttir Bestu, stærstu, slökustu og verstu myndir ársins 2025 Framhald af Napóleonsskjölunum í vinnslu Enginn Óskar til Íslands 2026 Bestu myndir Robs Reiner Dick van Dyke á hundrað ára afmæli Pulp Fiction leikarinn Peter Greene látinn Frumsýning á Vísi: „Sýna fólki hver Bubbi er í raun og veru“ Nágrannar kveðja endanlega í dag Lawrence og Hutcherson snúa aftur í Hungurleikana Ósáttur við framhaldið: „Skildu ekki hvað gerði þá fyrstu sérstaka“ „Það er hægt að búa til alvöru hasarmyndir á Íslandi“ Yrsa, Hannes og Björg í eina sæng með Thule Sagði „frost í greininni“ og krafði Loga um breytingar Þrýstingur Trump dugði til að fá Rush Hour 4 í gegn Eru þetta bestu gamanmyndir sögunnar? Udo Kier er látinn Helga Margrét tekur við af Króla Framleiða keflvískan krimma sem gerist á hápunkti kalda stríðsins Æstur aðdáandi óð í Grande Hafnar ásökunum um dónamyndir og segir þveröfugt farið Sópa til sín verðlaunum um heim allan Íslenskur Taskmaster kemur í vor Hannes í víking með gamansama glæpamynd Snýr aftur í leiklistina eftir sjö ára fjarveru Urðað yfir nýja þætti Kim: Núll stjörnu glæpur gegn sjónvarpi Sjá meira