Sport

Spilaði dauða­drukkinn í átta leikjum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Quentin Jammer var mjög farsæll leikmaður með San Diego Chargers í NFL-deildinni.
Quentin Jammer var mjög farsæll leikmaður með San Diego Chargers í NFL-deildinni. Getty/Peter G. Aiken

Fyrrverandi leikmaður Chargers-liðsins í NFL-deildinni hefur viðurkennt á samfélagsmiðlum að hann hefði spilað nokkra leiki undir áhrifum áfengis á NFL-ferli sínum.

„Sönn saga. Árið 2011 spilaði ég dauðadrukkinn í að minnsta kosti átta leikjum,“ birti Quentin Jammer á X-inu

Jammer spilaði fyrstu ellefu tímabil sín með San Diego Chargers áður en hann lauk NFL-ferli sínum árið 2013 með Denver Broncos. Tímabilið 2011 var það fyrsta síðan hann var nýliði árið 2002 sem hann lauk án þess að ná að stela boltanum af andstæðingi.

Í röð færslna tengdi Jammer drykkjuna við persónulega erfiðleika sína og sagði að skilnaður hans hefði leitt hann út í áfengisneyslu og að þessi opinberun væri eins konar hreinsun.

„Fótboltamenn glíma líka við vandamál í lífinu,“ skrifaði hann á X-inu.

„Vitið þið af hverju gaurar fyrirfara sér? Af því að þeir geta ekki verið berskjaldaðir,“ stendur í færslu Jammers.

„Þannig að allt þetta drasl safnast bara upp og kemst hvergi. Of skömmustulegir til að biðja um hjálp. Fjölskyldan horfir á þá grotna niður. En endilega drullið yfir mig fyrir að vera berskjaldaður. Ég er ekki dauður, gaur!“

Jammer var öflugur varnarmaður og missti aðeins úr fjórum leikjum á tólf tímabilum með Chargers.

NFL



Fleiri fréttir

Sjá meira


×