Bíó og sjónvarp

Sagði „frost í greininni“ og krafði Loga um breytingar

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Anton Máni Svansson lýsti yfir miklum áhyggjum varðandi stöðu íslenskrar kvikmyndagerðar og kallaði hann eftir aukinni fjárfestingu.
Anton Máni Svansson lýsti yfir miklum áhyggjum varðandi stöðu íslenskrar kvikmyndagerðar og kallaði hann eftir aukinni fjárfestingu.

Staða kvikmyndagerðar á Íslandi var harðlega gagnrýnd á nýafstöðu Kvikmyndaþingi. Formaður Sambands íslenskra kvikmynfaframleiðenda sagði „frost í greininni“ og kallaði hann eftir skýrara regluverki á endurgreiðslum og aukinni fjárfestingu.

Kvikmyndaþing 2025 fór fram á miðvikudag, en yfirskrift þingsins í ár var „Verðmætasköpun og menningarspegill – tækifærin í íslenskri kvikmyndagerð“. Fullt var út úr dyrum og fjölbreyttur hópur vítt og breitt úr íslenskri kvikmyndagerð meðal gesta.

Að þinginu stóðu Samband íslenskra kvikmyndaframleiðenda (SÍK), Samtök kvikmyndaleikstjóra (SKL), Félag leikskálda og handritshöfunda (FLH), Félag kvikmyndagerðarmanna (FK) og Samtök iðnaðarins (SI).

„Þegar fjármagnið dregst saman minnkar svigrúmið“

Hrönn Sveinsdóttir, formaður Samtaka kvikmyndaleikstjóra, stýrði þinginu og beindi kastljósinu að tækifærum sem felast í áframhaldandi fjárfestingu og öflugum stuðningi við íslenska kvikmynda- og sjónvarpsþáttagerð.

Hrönn Sveinsdóttir opnaði þingið og stýrði umræðum á því.

Hrönn sagði í opnunarávarpi sínu að nýliðun hefði orðið í kvikmyndaiðnaði á síðustu árum, fleiri konur störfuðu nú innan greinarinnar og Ísland hafi verið með hæsta hlutfall kvenleikstjóra í Evrópu árin 2019 til 2023 samkvæmt European Audiovisual Observatory. Þróunin stæði þó höllum fæti.

„Þegar fjármagnið dregst saman minnkar svigrúm til að styðja nýliða, konur og fólk með fjölbreyttan bakgrunn. Þá verða færri verkefni gerð, fá tækifæri skapast og raunhæf hætta er á að fjölbreytileiki, nýliðun og breytt samfélagslegt landslag innan kvikmyndagerðar glatist á ný,“ sagði Hrönn í ræðu sinni.

Fækkun verkefna og fjárskortur valdi stöðnun

Anton Máni Svansson, formaður SÍK, flutti erindi þar sem hann lýsti yfir áhyggjum af stöðu greinarinnar og „frosti í bransanum“. Frumsýndum íslenskum bíómyndum hefði fækkað verulega á síðustu árum sem tengdist beint niðurskurði í Kvikmyndasjóði.

Sagði hann framlög til Kvikmyndasjóðs „langt undir þörfum greinarinnar“ og fjöldi verkefna væri nú fastur í biðstöðu. Mörg verkefni verði ekki að veruleika nema fjármögnun batni og sum þeirra hafi þegar flust til annarra landa, þar sem þau eru framleidd á öðru tungumáli.

Anton Máni er formaður SÍK og framleiðandi.

Á sama tíma finni framleiðendur fyrir því að mun erfiðara sé að ná erlendu fjármagni inn í íslensk verkefni. Anton benti einnig á að velta í greininni hefði dregist saman um 22 prósent miðað við fyrstu átta mánuði ársins og að fjöldi fagfólks hefði lítið að gera um þessar mundir.

Anton beindi einnig sjónum sínum að endurgreiðslukerfinu, sem ætlað er að styðja við bæði innlend og erlend kvikmyndaverkefni. Núverandi stuðningur upp á 25 prósent væri ekki nægilegur og þyrfti að einfalda kerfið.

Bergur Ebbi, Anton Máni, Logi Már, Hrönn Sveins og Ása Berglind á þinginu.

„Við erum lítið land. Flest lönd hafa í marga sjóði að sækja þegar kemur að kvikmyndagerð. Við höfum eingöngu einn sjóð og því er endurgreiðslukerfið sérstaklega mikilvægt fyrir innlend verkefni,“ sagði Anton.

Anton benti á að þegar opinber framlög eru dregin frá stofni til endurgreiðslu hafi það mjög neikvæð áhrif á fjármögnun allra þeirra verka sem hljóta styrki frá Kvikmyndasjóði.

Að lokum lagði Anton fram afgerandi kröfu fyrir hönd kvikmyndaiðnaðarins upp á 35 prósent endurgreiðslu á öll kvikmyndaverkefni en 40 prósent á barnaefni.

Regluverkið óskýrt og vill breyta því

Logi Einarsson, menningar- og viðskiptaráðherra, lokaði þinginu og sagði að regluverk endurgreiðslna hafi verið óskýrt. Hann sagði nýtt frumvarp, sem tryggi skýrari reglur og auki endurgreiðslu til barna- og unglingaefnis úr 25 prósent í 35 prósent, vera fyrsta skrefið.

Logi Einarsson, menningarráðherra, lokaði þinginu.Vísir/Vilhelm

Hvatti hann gesti og félög innan kvikmyndaiðnaðarins til að skila inn umsögnum við frumvarpið og sagði vilja vera til frekara samtals. Stjórnvöld vilji auka fyrirsjáanleika fyrir bæði greinina og ríkissjóð.

Ráðherra ítrekaði einnig mikilvægi kvikmyndagerðar fyrir tungumálið, menningararfinn og sköpun ungs fólks og að fjárfesting í greininni væri ekki aðeins fjárhagsleg heldur menningarleg.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.