Körfubolti

Sjáðu krafta­verkið í riðli Ís­lands

Sindri Sverrisson skrifar
Ignas Sargiunas breyttist í Reggie Miller í Lundúnum í gær og trúði vart eigin augum eftir að hafa tryggt Litáum sigur.
Ignas Sargiunas breyttist í Reggie Miller í Lundúnum í gær og trúði vart eigin augum eftir að hafa tryggt Litáum sigur. Skjáskot/FIBA

Bretar mæta beygðir í Laugardalshöll á sunnudag eftir að hafa orðið fórnarlömb hreint ótrúlegrar endurkomu í London í gærkvöld, þegar þeir misstu niður sjö stiga forskot gegn Litáen á síðustu tíu sekúndunum, í undankeppni HM karla í körfubolta.

Ísland vann stórkostlegan sigur gegn Ítalíu á útivelli í gær, 81-76, en á sama tíma framkallaði Litáen kraftaverk á síðustu sekúndunum í London og vann 89-88.

Raunar var það fyrst og fremst Ignas Sargiunas sem átti heiðurinn að kraftaverkinu, eins og sjá má hér að neðan.

Þegar tíu sekúndur voru eftir var Litáen sjö stigum undir, 87-80, en þá skoraði Sargiunas þrist. Strax var brotið á Bretum sem nýttu aðeins annað vítaskota sinna og aftur skoraði Sargiunas þrist, þegar 3,5 sekúndur voru eftir. Svo gerðist þetta:

Carl Wheatle tók innkast inn á miðjan völlinn þar sem Sargiunas náði að stela boltanum, komast aðeins áfram og setja niður flautuþrist úr afar erfiðri stöðu. Við það brutust út brjáluð fagnaðarlæti eins og sjá má hér að ofan.

Miðað við úrslitin í fyrstu tveimur leikjunum stefnir í afar spennandi undankeppni í riðli Íslands þar sem keppni heldur áfram á sunnudaginn, þegar Ísland tekur á móti Bretlandi klukkan 16:45 í Laugardalshöll.

Aftur verður leikið í riðlinum 27. febrúar og 2. mars, og svo 2. og 5. júlí þegar undanriðlinum lýkur. Þrjú efstu liðin komast þá áfram í sex liða milliriðil og taka með sér fyrri úrslit, og komast svo þrjú lið úr milliriðlinum á sjálft heimsmeistaramótið í Katar 2027. Síðast var Ísland aðeins einni körfu frá því að komast á HM.


Tengdar fréttir

„Við sýndum mikinn töffaraskap í lokin“

Elvar Már Friðriksson átti stórkostlegan leik í kvöld þegar íslenska karlalandsliðið í körfubolta hóf undankeppni HM með frábærum sigri á Ítalíu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×